Hér að neðan er smá samantekt frá nokkrum veiðisvæðum sem tengjast veiða.is.

Brúará – Þokkaleg veiði hefur verið í Brúará, á köflum. Eins og áin er þekkt fyrir þá fara ýmsir tómhentir frá henni en aðrir hafa verið að ná nokkrum bleikjum yfir daginn. Mikið vatn er í ánni og örlítill litur á köflum.

Litlaá – Mikil og góð veiði hefur verið í Litlaá frá opnun 1. apríl. Eftir fyrstu vikuna höfðu 340 fiskar veiðst á 5 stangir í ánni sem gera ca. 10 fiska á stöng pr. dag sem er mjög gott. Öllum fiski er sleppt aftur.

Grímsá – Kropp hefur verið í Grímsá frá opnun. Veitt er á 2 stangir í ánni og höfðu 14 fiskar verið skráðir í bókina þann 9. apríl.

Hraunið – Hraunið hefur verið lítið stundað það sem af er vori og litlar fréttir þaðan. Besti tíminn í Hrauninu er frá miðjum maí fram í ágúst.

Vatnamótin – Góður gangur hefur verið í Vatnamótunum frá opnum og hafa flest holl verið að veiða vel. Um 200 fiskar hafa veiðst á stangirnar 5 frá 1. apríl. Kunnugir segja að oft er lok apríl og byrjun maí einna besti vortíminn í Vatnamótunum. Því má eiga von á góðu áfram.

Vatnaveiðin – Frekar rólegt hefur verið í vatnaveiðinni frá opnun og engar sögur farið af stórum aflahrotum. Ekki hefur þó vantað uppá ástundun veiðimanna en í opnun vatnanna var nánast biðröð eftir vinsælustu stöðunum við vötnin.