Veiðitímabilið hófst í dag í ágætu veðri víðast hvar á landinu. Aflabrögð voru yfirleitt hæg framan af morgni, en þó fréttist að flottri 5 punda bleikju í Varmá og nokkrum birtingum sem voru komnir á land snemma morguns. Við renndum við á nokkrum veiðisvæðum og hleruðum veiðimenn víða um land. Hér er smá samantekt af því.

 

Brúará fyrir landi Spóastaða – Veiðimenn voru mættir á bakkann fyrir 8 í morgun en fyrstu bleikjurnar tóku þegar klukkan var langt gengin í 10. Þegar við renndum þar við um kl. 13 voru um 10 fiskar komnir á land, mest bleikjur en einnig urriðar. Veiðin kom niðri á Breiðabakka en einnig á fossasvæðinu.

Hólaá, Apavatn og Laugarvatn – Rólegt var á þessum slóðum og ekki margir veiðimenn sem við vissum af. Þó fór amk 1 veiðimaður í Hólaá og kom til baka með 2 fína urriða. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er enn ís á Apavatni, að hluta en Laugarvatn er að mestu íslaust.

Eldvatn í Meðallandi – Veiðimenn sem eru í Eldvatni sögðu að fyrsta vaktin hefði verið óvenju róleg en 4 birtingar komu á land, frá 65-70cm langir.

Tungufljót í Skaftafellssýslu – Tungufljótið hefur yfirleitt gefið vel á vorin og nú hóf fyrsti hópurinn á vegum nýss leigutaka, veiðar í ánni í morgun. Nú um hádegisbil voru 9 fiskar komnir á land, þar á meðal þessi hér að ofan sem Sigurður Marcus Guðmundsson veiddi og sleppti.

{gallery}april2014{/gallery}

Brunná – Veiðimenn í Brunná létu vel að aðstæðum og veiði í morgun. Veiðin gekk vel og hádegi voru hátt í 10 fiskar komnir á land, allt bleikjur. Einnig höfðu þeir misst nokkra.

Vífilsstaðarvatn – Veiðin var dræm í morgun en ekki vantaði þó veiðimennina. Vatnið var kalt, enda ís á því að hluta. Aðstæður eiga þó efalaust eftir að batna á næstu dögum.

Við munum birta fleiri fréttir síðar í dag.

[email protected]