Veiðin er hafin í Norðurá og Blöndu. Mikið vatn hefur verið í Norðurá þessa síðustu daga og í gærkveldi sýndu vatnsmælar 60m/3. Vatnsmagn hefur þó verið sjatnandi síðustu klst. og því voru aðstæður ákjósanlegar þegar formaður SVFR hóf veiðar í morgun, þó áin hafi verið eilítið skoluð. Það tók ekki nema um 4 mínutur fyrir hann að landa fyrsta laxinum. Tók hann í þriðja kasti. Var það 72 cm nýgengin hrygna sem tók rauða frances tommu túpu við Skerin.
Veit þessi byrjun á gott og spennandi verður að fylgjast með komandi dögum í ánni. Enn höfum við ekki fengið neinar fregnir frá Blöndu en ef þær berast, þá skellum við þeim inn.
Myndina að ofan tók Ásmundur Helgason.