Veiðin í gær, á fyrsta veiðidegi ársins, var víða mjög róleg enda aðstæður vægast sagt erfiðar.  Ár eins og Geirlandsá og tungufljót voru óveiðanlegar vegna ís og annarstaðar, eins og í Eldvatni og Brúará, var mjög kalt, vatnshiti rétt um núllið og ísrek á ánum. Einn fiskur kom á land í Eldvatni, ca. 60cm birtingur. Í Brúará kom einn urriði á land við Brúna. Á morgun á svo að fara að hlýna og rigna víða. Sjá fréttabúta hér að neðan,

Veiðin í Varmá var flott í gær, hátt í 50 fiskar og margir ansi vænir. Spáð er hlýnandi og mikilli rigningu þar á morgun. Veiðin í tungulæk tók við sér þegar leið á daginn. Erlendir veiðimenn eru við veiðar í ánni, ásamt íslenskum leiðsögumanni. Lokatölur í gær voru rúmir 70 fiskar, bæði geld- og hrygningafiskar.

Veiðin á norðurlandi fór jafnvel hægar af stað en á suðurlandi enda mikið vetrarveður í gær, frost, hvassviðri og éljagangur. Veiðimenn í Litluá náðu þá um 30 fiskum við erfiðar aðstæður.

Mynd: Hrafn Ágústsson með bleikju veidda við brúna í Brúará, apríl 2013

[email protected]