Hérna á veiða.is höfum við reglulega birt fréttir úr Brúará í Landi Spóastaða. Rólegt hefur verið yfir ánni í vor og sumar, enda ástundum með eindæmum léleg. Hver ástæðan er, er erfitt að fullyrða um, en ár og veiðisvæði koma og fara í tísku eins og gerist og gengur. Þrátt fyrir litla ástundun höfum við heyrt af einum og einum veiðimanni sem hefur átt góða stund við ánna og farið heim með fallegar bleikjur í farteskinu.

Í morgun heyrðum við af þremur mönnum sem renndu í ánna einn morgun í vikunni og gerðu góða veiði.

Voru þeir mættir í Brúará uppúr kl. 8 og hófu veiðar niðri á bökkum. Lítið gerðist þar utan þess að þeir sáu eina væna bleikju í kantinum. Við brúna sáu þeir 6-7 bleikjur í hnapp, en engin þeirra leit við flugum frá þeim. Hlutirnir fóru svo að gerast þegar þeir færðu sig ofar í ánna. Svæðið fyrir neðan og við veiðikofann var fullt af fallegri sjóbleikju. Þegar þeir hættu veiðum uppúr kl. 12:00, höfðu þeir landað 15 bleikjum og misst margar. Veiddu þeir uppfyrir sig með tökuvara og höfðu á orði að tökurnar hefðu verið mjög grannar og því nauðsynlegt að hafa öll skynfæri úti. Þær flugur sem gáfu best voru Babbinn og Krókurinn. Veiðimennirnir sem þarna voru á ferðinni eru allir með reynslu úr ánni.

Eins og við höfum áður greint frá er mikið laust í Brúará, ekki síst á virkum dögum. En áin en falleg og umhverfið skemmtilegt. Hún er áskorun fyrir alla veiðimenn en verðlaunar vel þolinmæði og þrautseigju.

 

Brúarárspjallið á veiða.is