Veiði hófst í Gufuá nú um helgina og þann 22. júní kom fyrsti laxinn á land, fallegur 72 cm fiskur sem veiddist í fossinum. Óvenjulegt er að lax veiðist svo snemma svona ofarlega í ánni, en fossinn er langt fyrir ofan þjóðveg. Algengast er að fyrstu laxarnir komi á neðstu veiðistöðum í ánni. Ágætis urriðaveiði hefur einnig verið í Gufuá, en fyrstu tvo dagana komu ellefu urriðar á land.
Gylfi Jón Gylfason og Guðlaugur Fjeldsted segja mikið vatn í ánni og hefur hún vegna tíðarfars sjaldan verið jafn vatnsmikil á þessum tíma og nú. Þeir félagar segja þetta mikla vatn lofa góðu og laxinn geti strax komist upp á efra svæðið þegar smálaxagöngur fara að hellast inn með stækkandi straum. Gufuármenn bíða því spenntir eftir Jónsmessustraumnum.
Hér má sjá hvað er laust af veiðileyfum í Gufuá í sumar. Verð á stöng er frá kr. 12.500 – 25.000.