Eins og kom hér fram á vefnum í gær, þá eru lausir dagar í Gufuá í Borgarfirði komnir inná veiða.is. Gufuá hefur eignast stóran hóp „vina“ síðustu sumar sem sækja hana heim á hverju sumri. Leyfilegt er að veiða á flugu og maðk í ánni. Eitt hefur mörgum veiðimönnum þótt vanta við Gufuá, en það er veiðihús eða aðstöðuhús. Leigutakar árinnar, Gylfi Jón Gylfason og Guðlaugur Fjeldsteð munu gera bragarbót á því fyrir komandi tímabil.

Við heyrðum aðeins í leigutökunum, þeim Gylfa og Guðlaugi og spurðum þá nánar útí sumarið, verð veiðileyfa og nýja húsið.

Við höfum einsett okkur að gefa venjulegu fólki færi á að komast í laxveiði á viðráðanlegu verði sögðu þeir félagar Gylfi Jón og Guðlaugur Fjeldsteð. Hæsta verð hjá okkur á stöng er Kr. 25.000 á besta tíma, jaðartíminn ekki nema tæpur helmingur af því verði. Það finnst okkur gott verð miðað við að áin er í venjulegu árferði að gefa á milli 150-250 laxa á tvær stangir. Við erum auðvitað að taka ákveðna áhættu: Við treystum á að veiðimenn virði það við okkur að við höldum verðinu niðri, en vonum að þeir komi þá kannski oftar í staðinn. Það gekk eftir í fyrra, það var sáralítið óselt hjá okkur nema í september. Árið í fyrra var ekki gott hjá okkur frekar en í öðrum ám í Borgarfirði. Við töldum því ekki forsendur til hækkunar milli ára.

En hvað með aðstöðuna við ána?

Í ár ætlum við í upphafi tímabils að vera tilbúnir með lítið hús við ána þar sem menn geta fleygt sér yfir nótt, grillað og gert sér góðan dag með félögunum. Það gerbreytir öllu. Við erum ekki nema 7 km frá Borgarnesi og höfum verið að selja töluvert af stökum dögum, menn hafa verið að skreppa, en nú er hægt að gera úr þessu alvöru túr og það verður spennandi að sjá hvernig veiðimenn taka þessu hjá okkur. Húsið er lítið, menn eiga að geta séð um sig sjálfir með lágmarkstilkostnaði án þess að það sprengi verðið á túrnum upp úr öllu valdi. Þannig höfum við hugsað þetta. Áin er náttúrulega ótrúlega skemmtileg og fjölbreytt, skipgeng með sjávarföllum á neðra svæðinu og svo lítil og nett fyrir ofan þjóðveg að hún er mjög viðkvæm fyrir þurrkum eins og aðrar ár í Borgarfirði.

Hér má sjá lausa daga í Gufuá í sumar.

[email protected]