Mikil aðsókn hefur verið hjá veiðimönnum að komast í Héðinsfjarðará, enda er um goðsögn að ræða í hugum margra veiðimanna. Miklum erfiðleikum var bundið að komast í ánna, allt þar til Héðinsfjarðargöng opnuðu. Í góðum veiðiperluþætti sem Eggert Skúlason gerði var ánni og svæðinu öllu gerð góð skil, sem mörgum veiðimönnum er enn í fersku minni.
Áin fór í útboð 2011 og var það Bjarni Þorgeirsson sem hreppti hnossið. Að sögn hans þá tók einungis örfáa daga að selja alla stangardaga sumarsins þegar opnaði fyrir sölu leyfa nú í upphafi árs og þurftu margir frá að hverfa.
Á næstu árum er áætlað að rannsaka bleikjuna í Héðinsfjarðará betur, hegðun hennar og lífríki árinnar. Í þeim tilgangi verður meðal annars farið í merkingar á bleikjum og hegðun og afdrif bleikjunnar kortlögð.
Mikil og góð sjóbleikjuveiði er í Héðinsfjarðará en veitt er á 4 stangir á tímabílinu 15. júlí til 15. ágúst en eftir það er þeim fækkað í 2 og veiði bönnuð efst í ánni. 7 fiska kvóti er í ánni.