Heiðarvatn í Mýrdal opnaði þann 1. maí. Seldar eru 4 stangir í vatnið á tímabilinu maí til október. Veiða.is heyrði í mönnum sem voru i vatninu fyrir nokkrum dögum og sögðu þeir að veiðin hefði verið mjög góð. Fóru þeir með nær öllu vatninu og sögðu að fiskur hefði verið út um allt. Mest veiddist af staðbundnum urriða en þó var nokkuð um sjóbirting sem augljóslega hafði dvalið í vatninu vetrarlangt. Bleikjan var í minnihluta þeirra fiska sem komu á land. Stærstu fiskarnir voru á bilinu 7-8 pund. Vildi veiðimaðurinn sem rætt var við nefna sérstaklega að vel hefði veiðst á sérhnýttar flugur frá Júlla í Flugukofanum.
Að sögn Ásgeirs umsjónarmanns Heiðarvatns þá er byrjunin í vatninu með því albesta sem sést hefur hin seinni ár. Sala veiðileyfa í vatnið hefur farið vel af stað. Helgarnar eru flestar farnar en eitthvað er um lausa virka daga á næstunni.
Þú getur lesið þig til um Heiðarvatnið inná veiða.is.