Brúará er næst stærsta Lindá Íslands. Hún rennur um Mörk Biskupstungna og Grímsness. Upptök hennar eru í Laugardalsfjöllum, Úthlíðarhrauni og á hálendinu þar fyrir innan. Brúará dregur nafn sitt af steinboga sem lá yfir hana á öldum áður. Sagnir segja að vinnumaður í Skálholti hafi brotið bogann niður svo umrenningar ættu ekki eins auðvelda leið að höfuðbólinu. Brúará sameinast Hvítá töluvert fyrir neðan Skálholt.

Brúará hefur í gegnum árin verið vinsæl veiðiá. Veiði hefur verið stunduð frá all nokkrum bæjum sem land eiga að ánni, þó sínu mest frá bæjunum Spóastöðum, Seli og Haga. Ekki hefur verið hægt að fá mjög áreiðanlegar upplýsingar um veiði í ánni síðustu árin þar sem veiðiskýrslum er ekki skilað frá öllum bæjum. Þrátt fyrir það má sjá að veiðin hefur verið á uppleið síðustu misserin.

Hér að neðan munum við fara yfir nokkra af helstu veiðistöðum í Brúará fyrir landi Spóastaða. Ekki er kannski um eiginlega veiðistaðalýsingu að ræða heldur nefnum við nokkra af helstu stöðunum.

Breiðibakki – neðsti merkti veiðistaður svæðisins og einn sá besti. Þessi staður er tiltölulega stór og getur hæglega rúmað 2 til 3 stangir í einu. Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar komið er að honum, að mjög auðvelt er að styggja bleikjuna. Því skal bílum helst lagt þar sem slóðinn kemur að ánni. Ekki keyra bakkann sjálfan. Einn aðal staðurinn er þar sem tunnu má finna við bakkann. Byrja skal á því að veiða frá bakkanum en vaða mögulega útí eftir smá tíma. Bleikjan liggur oft í holum sem finna má í leirbotninum sem þarna er. Þó svo að tunnan sé eitt aðal kennileytið, er mikilvægt að veiða bæði vel niður fyrir hana, alveg niður í beygju sem er á ánni og einnig vel upp fyrir tunnuna. Bleikjan getur verið á öllum þessum kafla.

Flóðir og Forarkrókur – þessir staðir gáfu meira hér á árum áður en vert er að taka eitt, tvö rennsli í þá áður en haldið er ofar í ánna.

Brúin – Það eru nokkrir staðir, ofan og neðan við brúnna en vert er að gefa sumum meiri gaum en öðrum. Það eru ýmsir sem segja að smíðin við nýju brúnna hafi eyðilagt brúarhylinn en samt er alveg ljóst að bleikjan er þarna ennþá. Bleikjan liggur mikið í kantinum og útí miðri á fyrir ofan brúnna. Einnig má sjá bleikjuna liggja undir brúnni og fyrir neðan hana en þá meira sunnan megin. Fínt er að eyða smá tíma við brúnna.

Klöppin og Ferjunefið -Svæðið á milli þessara tveggja staða er eitt best svæðið fyrir landi Spóastaða að margra mati. Ágætt er þá að keyra uppað veiðihúsinu og veiða sig niður eða byrja við brúnna og veiða upp ána. Almennt í Brúará er fínt að kíkja eftir svæðum í botninum sem eru brún eða svört á litinn. Þar fer lífið fyrst af stað þegar sólin fer að yla botnin.

Kerlingarvíkin – Þetta er flottur staður, beint fyrir framan veiðihúsið. Þarna er mikilvægt að ná flugunni vel niður. Straumur er víða mikill. Þetta svæði er nokkuð stórt og það getur auðveldlega rúmað 2 til 3 stangir.

Hrafnaklettar – Nú erum við komin uppí Hrafnakletta, einn þekktasta staðinn í ánni. Þar fyrir neðan er reyndar fremsti hólmi sem auðvitað skal taka rennsli í, ef tími gefst. Hrafnaklettar er flottur og mikill staður. Hér liggur alltaf bleikja. Málið er bara að finna hana, koma flugunni niður og ráða við strauminn sem getur hent línunni til og frá.

Dynjandi – Það er um að gera að reyna fossasvæðið vel en einn skemmtilegasti staðurinn í ánni er brotið sjálft fyrir ofan fossinn. Vaðið er þá á brotinu, útí ca. miðja á og kastað upp fyrir sig. Þar eru holur í berginu þar sem bleikjan liggur.
Svæðið fyrir ofan foss skal svo endilega reynt líka ef tími gefst. Þetta svæði er frekar vannýtt en getur gefið mjög vel.

Veiðiaðferð og flugur:
Við sögðum frá aðferð Vignis Arnarsonar um daginn en í þeirri umfjöllun sagði: „Það sem hefur reynst honum best er að veiða með dropper, nota tökuvara, kasta ca °45 upp fyrir sig og bregða skjótt við minnstu hreyfingu tökuvarans. Hann segir að mikilvægt sé að ná flugunni niður og láta hana nánast „skralla“ með botninum.“

Nokkrar af helstu flugunum sem veiðimenn í Brúará nota eru: Babbinn, Krókurinn, ýmsir vínil ormar (Brúnn, rauður, orange). Hvítar lirfur. Kopar moli og svartur moli, engjaflugan, Peacock og Watson Fancy.

Ekki hefur verið viðhöfð eiginleg skipting á veiðisvæðum fyrir landi Spóastaða. Veiðimenn eru hvattir til að sýna tillitssemi og góða háttvísi.

{gallery}bruara1{/gallery}

[email protected]