Breska veiðitímaritið „Fieldsports“ fjallar um skot- og stangveiði. Þó svo að það sé þekktara fyrir skotveiðiáherslur þá hefur umfjöllum um stangveiði oft vakið mikla athygli. Í nýjasta tímaritinu sem var að koma út er fjallað um tuttugu og tvo af þeim mest spennandi stöðum fyrir fluguveiðimenn til að sækja heim. Nokkrir valinkunnir veiðimenn eru spurðir útí þeirra drauma veiðistaði eða veiðiár. Orri Vigfússon er einn þeirra sem beðinn var um álit. Svar Orra við þeirri spurningu er hér að neðan. Hægt er að finna enska útgáfu af svari hans hér neðst á síðunni.
Himnaríki á jörðu
Hvar ég myndi vilja veiða ef ég ætti aðeins einn dag eftir ólifaðan? Þetta er erfið spurning fyrir mann sem finnst allar ár jafn dýrmætar! Þótt ég haldi mig aðeins við bestu laxveiðiárnar er þetta ekki vandalaust. Það er úr svo mörgum góðum ám að velja. Hugurinn leitar til árinnar Naver í Skotlandi, ánna í Finnmörku og Þrándheimi í Noregi, hinna stórfenglegu vatnsfalla á Kólaskaga , Narcea í Asturias á Spáni og Restigouche í Kanada.
Ég hlýt að staðnæmast við Laxá í Aðaldal en áin og umhverfi hennar, norður undir heimskautsbaug, kemst í mínum huga næst því að vera himnaríki á jörðu. Þar veiddi ég maríulaxinn, viðureignin við hann er enn mín kærasta minning. Ég myndi því velja Laxá í Aðaldal.
Ég færi þangað um sumarsólstöður þegar sólin skín nær allan sólarhringinn og æðarungarnir svara kalli hafsins, klöngrast framhjá Æðarfossum meðan silfraðir laxar stökkva þessa straumþungu fossa á leið til hrygningarstöðvanna uppi í dalnum. Þrumandi fossniðurinn myndar sterkan undirtón í hljómkviðu náttúrunnar. Fuglalífið er fjölskrúðugt og kjarri vaxið hraunið mikilúðlegt , fannhvít Kinnarfjöllin mynda baksviðið. Hver hylur í þessari á er snilldarverk mótað af náttúrunni. Maður finnur til auðmýktar í hvert sinn sem kastað er. Í þessu umhverfi eiga orð Ted Hughes vel við; að laxveiðar dýpki vitund manns og skynjun.
Ég myndi byrja snemma eftir léttan morgunverð og velja flugurnar vandlega; hafa Night Hawk í mörgum stærðum, Laxá blá og Jock Scott, að ógleymdri Black Fairy til að kasta í blálokin, síðasta veiðidaginn. Ég veldi Sage One stöng, tólf og hálft fet með flotlínu. Fyrir mér skiptir meira máli hvernig línan leggst en hvort köstin eru löng. Ég myndi veiða hvern hyl hratt og flýta mér í þann næsta eins og ég gerði þegar ég var ungur. Á þessum síðasta degi mætti ég ekki missa af neinu tækifæri til að komast í færi við laxinn og finna þunga tökuna. Ég bæði því Róbert kokk um nesti til að forðast freistinguna að fara í veiðihúsið í hádegismat. Ef til vill þyrfti ég ekki að nota nema aðra höndina til að kasta og gæti nartað í nestið meðan ég væri að veiða.
Úr því að ég hefði verið dæmdur til að veiða aldrei lax framar myndi ég sennilega leyfa mér síðasta vindlinginn. Ég hef ekki reykt í 35 ár en minningin um ilminn og ánægjuna af Senior Service sígarettunum er enn mjög sterk. Það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu var að hætta að reykja.
Þessi dagur liði auðvitað alltof hratt. Ég yrði að vanda köstin, láta línuna leggjast mjúklega og fluguna skára strauminn svo að hún freistaði laxins – bíða svo rólegur eftir tökunni . Á Hagasvæðinu myndi Jón Fornason heilsa upp á mig og Ármann leiða mig um Hrúteyjarsvæðið. Þá kæmi Pétur og reri með mig yfir svipfrítt en dulúðugt Mjósundið. Og ég myndi rifja upp minningar um vini mína og veiðifélaga sem ég hef átt samfylgd með um bugður og breiður árinnar.
Síðustu köstin mín yrðu á neðsta svæðinu: Núpar-Laxamýri. Á Aðaldalsflugvelli stæði vél sem flygi með mig til Grænlands. Í fluginu læsi ég enn og aftur eftirminnilegustu bók um laxveiði sem ég þekki: Silver eftir Roderick Haigh-Brown. Þegar stigið væri út úr flugvélinni biði mín hundasleði við brautarendann; ég settist í skinnklætt ekilssætið, hottaði á hundana, endalaus hjarnbreiðan fram undan, ég stefndi í norðurátt til móts við miðnætursólina og liti aldrei til baka.
Orri Vigfússon
{gallery}adaldalur{/gallery}