Hlíðarvatn í Selvogi opnaði í dag, 1. maí. Síðustu daga hafa veiðinefndir vatnsins verið að störfum við að þrífa, taka til og undirbúa komu veiðimanna. Við það tækifæri könnuðu menn hvort bleikjan væri ekki vöknuð og komin í tökustuð, og það var raunin. Nokkrar bleikjur komu á land og því allt klárt fyrir sumarið.
Þegar veiða.is leit við í kvöld var suð-vestan gjóla, vatnshiti °7 og veiðimenn komnir á helstu staði við vatnið, þar sem vindurinn truflaði ekki köstin um of. Enginn var hinsvegar í Hlíðarey og þangað var haldið. Með ráðleggingar Kristjáns hjá Flugur og Skröksögur í huga, var fundinn efnilegur staður til að byrja að kasta á og var vikið milli litlu og stóru Hlíðarey fyrir valinu. Svartur vínill með orange kraga fór undir. Eftir nokkur upphitunarköst var rifið í línuna og fyrsta bleikja sumarsins staðreynd.
Þó svo að veiða.is hafi ekki haft fréttir frá öllum veiðifélögum Hlíðarvatns í dag, þá virðist sem almennt hafi menn átt ágætan dag og fjölmargar bleikjur komið á land. Sem dæmi komu 11 bleikjur á land hjá Árbliki, félagi úr Þorlákshöfn sem er með 2 stangir í vatninu. Stærsta bleikja dagsins sem við höfðum spurnir af vóg 2,4kg.
„Fulltrúar“ veiða.is verða við vatnið næstu daga og því munum við halda áfram að flytja ykkur fréttir úr Hlíðarvatni.