Veiða.is heyrði í dag í veiðimönnum sem voru að veiðum í Hlíðarvatni og höfðu verið að frá því í gærkveldi. Rólegt var búið að vera í bjartviðrinu í dag og fáar tökur en í gær var bleikjan í tökustuði, en samt nokkuð vandfýsin. Eftir nokkra leit og þreifingar við vatnið í gærkveldi fundu veiðimennirnir það sem bleikjan var að leita að. Hún vildi peacock nr. 14 og ekkert annað. Í Kaldós náðu þeir einni sem var um 45cm en það var svo útí Hlíðarey sem veislan hófst þessa kvöldstund. Samtals náðu þeir 7 bleikjum og misstu nokkrar. En svo vandfýsin var bleikjan að ef þeir settu eitthvað annað en peacock nr. 14 undir þá fúlsaði hún við flugunni, en peacockinn vildi hún.
Fáar sögur heyrast þessa dagana af bleikjuveiði í öðrum vötnum en Hlíðarvatni. Þingvallavatn opnaði 1. maí en í engri veiðisögu frá vatninu er bleikjan í aðalhlutverki. Þar virðist hinsvegar urriðinn í miklu stuði þessa dagana og eru þær orðnar margar sögurnar og myndirnar af stórum urriðum sem komið hafa á land í vatninu.
Veiðimenn sem eru á ferð við vötnin eru hvattir til að senda veiða.is stutta frásögn og jafnvel mynd, ef þeir hafa tækifæri til. [email protected]