Fréttatilkynning
Áframhaldandi samstarf um Hofsa í Vopnafirði.
Leigusamningur milli Veiðiklúbbsins Strengs og Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár um veiðiréttindi í Hofsá í Vopnafirði hefur verið endurnýjaður.
Hofsá hefur verið ein gjöfulasta og eftirsóttasta veiðiá á Íslandi. Þrátt fyrir niðursveiflu í laxveiði á landinu í fyrra, þá veiddist meira í Hofsá árið 2012 en árið á undan. Einnig er hlutfall af stórlaxi mjög hátt og óvíða er því stórlaxavonin jafn góð og í Hofsá.
Veiðihúsið Árhvammur var á síðasta ári endurnýjað og eru öll herbergi nú með með baði og húsið hið glæsilegasta með gufubaði og öðrum þægindum. Vegurinn meðfram ánni hefur einnig mikið verið lagfærður og nýr vegur hefur verið lagður inn að efstu veiðisvæðum, þar sem áður þurfti að ganga og erfitt yfirferðar.
Veiðiklúbburinn Strengur er vopnfirskt fyrirtæki sem hefur verið starfrækt í 53 ár. Innan fyrirtækisins hefur safnast mikil reynsla af leigu á laxveiðréttindum og skipulagningu áa með það að markmiði að efla ímynd þeirra. Þannig hefur með árunum byggst upp sterk ímynd á alþjóða vísu af traustri stjórnun laxveiða með áherslur á verndunarsjónarmið, nýjungar og bætt skipulag við veiðiár.
Enskir aðalsmenn voru forðum tíðir gestir í Hofsá en á seinni árum hefur íslenskum veiðimönnum fjölgað auk veiðimanna víðsvegar að úr Evrópu og frá Bandaríkjunum. Sérstakt silungssvæði er í ánni þar sem mikið er af fallegri sjóbleikju og hefur heimilisfólkið í Syðri-Vík annast sölu silungsveiðileyfa.
Líkt og systuráin Selá í Vopnafirði er Hofsá lýsandi dæmi um þann árangur sem hægt er að ná í veiðiám þegar saman fer hófsemi í veiði og góð umgengni.
Opnuð hefur verið vefsíðan www.hofsa.is en þar verður að finna upplýsingar, myndir, frásagnir og ýmsan fróðleik um ána.
Formaður Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár er Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur á Hofi í Vopnafirði. Formaður Veiðiklúbbsins Strengs er Orri Vigfússon, forsvarsmaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna.
Upplýsingar gefur Orri Vigfússon s. 893 3553