Hofsá í Vopnafirði á aðalupptök sín á heiðarsvæði sunnan Fossdals. Í hana fellur meðal annars afrennsli Sænautsvatns sem er í 67 km fjarðlægt frá sjó. Hofsá fellur í Vopnafjörð skammt innan við kaupstaðinn og er laxgeng rúma 30 km að fossi hjá samnefndu býli. Ýmsar ár og lækir falla í Hofsána, þar á meðal Sunnudalsá. Þar hefur ætíð verið nokkur laxveiði.

 

Veiðitímabilið í Hofsá hófst formlega þann 25. júní. Veiðin fór strax vel af stað og má segja að aldrei hafi dregið úr veiði svo nokkru næmi, nema þegar veður var slæmt í haust og það kólnaði. Nokkrir stórlaxar komu á land í Hofsá eins og flest ár. Sá stærsti nú í sumar var þessi 101cm hængur hér að ofan sem Róbert Haraldsson setti í á svæði 7. 

Hofsá er ein fárra veiðiáa hér á landi sem skilaði „eðlilegri“ veiði í sumar. Meðalveiði frá árinu 1974 eru um 1.100 laxar. Í sumar komu 1.008 laxar á land. Í ljósi þess stöðugleika sem áin hefur sýnt síðustu ár, má reikna með að ekki verði minna sótt í hana næsta sumar en síðustu ár.

Eftir málþing LS um helgina, þá veltir maður fyrir sér hverju þessi stöðugleiki sætir. Þegar árnar fyrir vestan og norðan voru flestar að slá aflamet á árunum 2008-2010, hélt Hofsá áfram að skila góðri og stöðugri veiði á bilinu 1.000-1.220 löxum. Svo nú þegar veiðin á vestur og norðurlandi hefur dregist saman um allt að 55%, þá heldur Hofsá áfram að skila sínu. Í ljósi þess sem kom fram í frétt um Málþingið um helgina, má ætla að seiðin úr Hofsá fái nú betri og stöðugri vaxtaskilyrði á þeim slóðum sem þau halda sig, líklega norð-austur af landinu, en þau sem halda í suður og vestur átt. En auðvitað er fleiri þættir sem hafa áhrif.

Í Hofsá er veitt með 7 stöngum og er einungis leyfð veiði á flugu. Öllum laxi sem er 69 cm eða stærri skal sleppt aftur í ánna.

Hér er hægt að lesa nánar um Hofsá.