Það hefur vart farið fram hjá einum einasta veiðimanni að komið er að ákveðnum tímamótum í samskiptum veiðifélaga og leigutaka áa á Íslandi. Það er ekki endilega svo að samskipti milli þessara aðila hafi almennt séð verið slæm heldur má líklega skýra það vandamál sem komið er upp útfrá tveimur staðreyndum. Annarsvegar því að gnægð fjármagns í bankakerfinu á árunum fyrir hrun keyrði upp verð í útboðum áa og hinsvegar var eftirspurn innan úr því sama kerfi svo mikil eftir veiðileyfum að enginn hugsaði þá hugsun til loka, að ferðalagið tæki einhverntímann enda. Jú, jú svo skiptir auðvitað einnig máli eftirspurn erlendis frá.
Í dag er staðan sú að almennir veiðimenn, þeir sem haldið hafa uppi eftirspurn á miðlungs og jaðartímum í mörgum veiðiám, eru komnir að endimörkum þolinmæði sinnar. Verðhækkanir síðustu ára voru mörgum þolanlegar á meðan veiðin skilaði svo mörgum góðum veiðisögum að umræðan um verð veiðileyfanna komast ekki að. Nú hinsvegar, í ljósi slælegt veiðisumars, fárra veiðisagna og óvissunnar um næsta sumar, er umræðan meðal veiðimanna sú að lítið verði fjárfest í laxveiðileyfum fyrir næsta sumar, nema til lækkana komi.
En hvað segir Landssamband veiðifélaga við þeirri stöðu sem er komin upp? Á málþing Landssambands Stangveiðifélaga um þar síðustu helgi mætti Óðinn Sigþórsson formaður Landssambands Veiðifélaga. Í máli hans kom fram að hann teldi að ekki væri hægt að sakast við veiðifélögin vegna þeirrar stöðu sem komin er upp. Hann taldi jafnframt enga ástæðu fyrir veiðifélög að gefa eftir verðhækkanir þó svo að eitt slæmt veiðisumar hefði komið. Óðinn sagði fleira í umræðunni á málþinginu sem sannfærði marga um að ekki yrði undið ofan af þeim verðhækkunum sem orðið hafa, nema komi til nýrra útboða á þeim ám sem mestur styr stendur um. Það fékkst svo sem staðfest með tilkynningu SVFR fyrir helgi en nú líta mál þannig út að Norðurá muni fara í útboð, fyrr en ætlað var.
En hvað gerist næst?
Það er alls ekki svo að allir veiðimenn séu búnir að gefast upp á „sínum“ ám. Það eru margar ár, ekki síst þær minni, sem búa svo vel að hafa mjög traustan veiðimannahóp sem ekki mun láta eitt slæmt veiði ár hrekja sig í burtu; menn halda sínum hollum. Það eru hinsvegar nokkrar ár, þær sem dýrastar eru og veiðin olli hvað mestu vonbrigðum í, sem vert er að fylgjast vel með. Nú um stundir, á sama tíma og látið er reyna á bókanir og sölur fyrir næsta sumar, reyna ýmsir leigutakar að ná fram raunlækkunum á leigugjaldi frá sínum viðsemjendum. Eins og komið hefur fram, þá mun óbreytt staða ríða einhverjum leigutökum að fullu, að því gefnu að næsta veiðisumar verði einnig slæmt. Svo má ekki gleyma því að inní einhverjum samningum eru ákvæði sem kveða á um að ef um forsendubrest er að ræða, þá megi segja samningum upp strax. Hvað sem gerist í vetur þá er ljóst að það verður að vinda ofan af þeirri þróun sem hefur verið í gangi. Það gerist hinsvegar ekki á einu bretti heldur á 3-7 árum í gegnum útboð á þeim ársvæðum sem mest hefur verið deilt á. Hvort um raunlækkun verði að ræða að hreina krónutölulækkun, mun koma í ljós.
En hvað gera laxveiðimenn nú? Munu þeir sitja heima næsta sumar eða skella sér í golfið eins og stundum hefur verið sagt? Eða kannski kaupa sér léttari græjur og skella sér í silunginn? Það gæti verið. Ein líkleg afleiðing af allri þessari umræðu er sú að veiðimenn munu í auknu mæli leita af „einfaldari“ laxveiði þar sem veitt er á færri stangir og engin skyldu gisting eða fæðisgjaldi er til að dreifa. Því er ljóst að einhverjar ár munu njóða góðs af þessari umræðu. Ár eins og Rangárnar, sem ekki eru ódýrar en hafa góðar heimtur af sínum sleppingum, munu einnig fá til sín veiðimenn sem hafa lítið látið sjá sig þar hingað til.
Fram kom á málþinginu um daginn að all góðar líkur séu á því að smálaxagöngur verði góðar næsta sumar. Seiða fjöldin sem hélt til sjávar og á að skila sér næsta sumar var í góðu meðallagi. Nú er að sjá hvort þessi seiði finni æti og skilyrði til þess að vaxa í vetur og skila sér í árnar næsta sumar. Ef það myndi gerast má vera að það sljákkaði í þessari umræðu allri en það breytir ekki þeirri staðreynd að víða er verð laxveiðileyfa fyrir löngu komið úr takt við kaupmátt íslensku krónunnar.