Á málþingi LS um helgina sem fjallaði um stöðu stangveiði á Íslandi, kom margt athyglisvert fram. Meðal annars héldu þeir Guðni Guðbergsson og Sigurður Már Einarsson frá Veiðimálastofnun, áhugaverð erindi.
Það þekkja allir þessar tölur um samdrátt veiði síðustu tvö ár og flestir veiðimenn fundu hann á eigin skinni. Veiðin í sumar var aðeins um 45% af því sem hún var sumarið 2010. Árin 2008 til 2010 voru reyndar bestu veiðiár sögunnar þannig að úr háum söðli var að falla. Í allri þessari umræðu gleyma menn svo stundum að ræða þær breytingar sem átt hafa sér stað í veiðinni síðustu ár. Veiði í Hafbeitaránnum telja nú um 20% af allri laxveiði á landinu og hátt í þriðjungi af öllum laxi er sleppt aftur í árnar. Guðni reyndi í sínu erindi að „leiðrétta“ fyrir þeim breytingum sem átt hafa sér stað til að hægt væri að bera tölur sumarsins saman við langtímameðaltal veiði. Þegar búið var að leiðrétta fyrir veitt og sleppt og taka út áhrif hafbeitaránna, þá fékkst það staðfest að veiðin í sumar var sú lakasta sem skráð hefur verið.
En hvað fór úrskeiðis í sumar? Seiðaárgangurinn sem fór til sjávar í fyrra og átti að skila sér í árnar í sumar, var alveg nógu stór til að skila fínu laxveiðisumri, skv. þeim Guðna og Sigurði. Út úr hreystursýnum fiska er hægt að lesa ýmislegt og út úr sýnum sumarsins er hægt að sjá að á þeim slóðum sem laxaseiðin héldu sig síðsumars í fyrra, skorti einfaldlega fæðu. Fæðuskorturinn hefur að öllum líkindum leitt til þess að stór hluti seiðanna hefur fallið í valinn og þau sem komust af voru rýr enda voru smálaxarnir smáir í sumar.
En hvar heldur laxinn sig í sjónum? Ekki er miklar rannsóknir sem liggja á bak við þessa spurningu. Þó er vitað að laxinn heldur sig einna helst í °8-9 heitum sjó og sá sjór hefur teygt sig frá Noregssjó og suðvestur fyrir Grænland. Tveggja ára laxinn hefur haldið sig töluvert fyrir vestan Grænland. Eins og flestir vita þá hefur sjór á norðurslóðum hlýnað nokkuð mikið undanfarin ár og leiða má að því lýkur að laxinn sé nú að reyna að aðlaga sig að þeim breytingum. Nokkuð ljóst er að seiðin sækja ekki öll á sömu slóðir og ræður staðsetning ánna líklega töluverðu þar um. Á fundinum um helgina greindi Guðni breytingu á laxveiðinni síðustu 2 sumur eftir landshlutum. Þar kom fram að veiðin á austurlandi var um 76% af því sem hún var sumarið 2010 sem kannski má kalla „eðlilegri“ samdrátt heldur en hrunið annarsstaðar á landinu. Líklegt má telja að seiðin úr ánnum fyrir austan leiti frekar norður og austur fyrir landið frekari en þau sem eru úr ánnum fyrir sunnan og vestan, en það þyrfti að rannsaka frekar. Á fundinum um helgina saknaði undirritaður að sjá ekki kort af hita sjávar eins og hann er eða var síðasta sumar. Það er ljóst að með þeim breytingum sem eru að verða á hita sjávar þá þurfa seiðin að færa sig til í leit að fæðu og ef breytingin gerist of hratt, þá kann að taka tíma fyrir seiðin að aðlaga sig.
Þó svo að erindi Guðna og Sigurðar hafi verið um margt upplýsandi, vöktu þau einnig margar spurningar og staðfestu að margt er á huldu. Í máli þeirra kom fram að í vetur muni þeir leggja aukna áherslu á að fara yfir öll gögn og allar forsendur sem stofnunin vinnur eftir við mat og eftirlit sitt með laxastofninum.
Við munum á næstunni halda áfram að fjalla um áhugaverða punkta frá Málþinginu. Sumt af því sem kemur fram hér að ofan eru vangaveltur greinahöfundar, byggðar á þeim upplýsingum sem komu fram á fundinum.