Þegar veiðimenn hella sér að krafti útí fluguveiðinni uppgötva þeir fljótt að áin er djúp og breið og að mörgu er að hyggja. Mikið úrval er af veiðivörum og tegundirnar margar. Einn angi þessa frumskógar eru flugulínurnar. Gott samspil flugulínu, flugustangar og hjóls, er líklega mikilvægasta atriðið í upplifun veiðimanns af sportinu.
Það er ekki bara úr mörgum línum að velja heldur er verð á flugulínu einnig mjög mismunandi. Auðvitað er þumalputtareglan sú að dýrustu línurnar eru þær sem hafa hlotið hvað mestu viðurkenningu og teljast þær bestu, en auðvitað eru það ekki algild sannindi. Við rákum augun í flugurlínur hjá samstarfsaðila okkar, Árvík, nú í vikunni og það sem vakti athygli okkar var ekki síst verðið en þær kosta frá ca. 5 þús uppí um 7 þús. Þessar línur eru frá kanadíska framleiðandanum Northern Sport. Við ákváðum að heyra í þeim hjá Árvík og fá nánari upplýsingar um þessar línur.
Árni hjá Árvík sagði okkur að þessar línur hefðu komið mjög vel út: „Flotlínurnar fljóta hátt og sökklínurnar sökkva rétt og þær hringast ekki í köldu vatni. Við höfum prófað línurnar við verstu aðstæður í Vífilstaðarvatni, þannig að við getum mælt með þeim. Einnig tókum við inn Distance-línu úr Charles Jardine línunni frá Wychwood. Hún var sú, sem kom best út í prófunum okkar, og passar vel inn í framboðið frá Northern Sport.“ Að auki sagði Árni: „Línurnar eru hins vegar í lægri kantinum á viktarbilinu þannig að þeir sem eru með stífar eða hraðar stangir gera e.t.v. rétt í að velja línu númeri þyngri en stöngin er gefin upp fyrir til þess að stöng og lína vinni sem best saman. Sumir framleiðendur hafa línurnar af ásettu ráði þyngri en línuþyngdin segir til um einmitt til þess að hlaða slíkar stangir betur.“
Allir þeir sem eru að leita að réttu flugulínunni ættu að vera ófeimnir við að spyrja sérfræðingana spjörunum úr. Mikilvægt er að fá góða ráðgjöf við valið. Þeir sem vilja skoða línurnar frá Árvík nánar ættu að heyra í starfsmönnum fyrirtækisins eða þeim veiðibúðum sem selja línurnar en þær eru Veiðivörur á Akureyri, Krafla í Reykjavík og Flugukofinn í Keflavík.