Nú berast fréttir af því að hvert vatnið á fætur öðru er að taka við sér og sífellt fleiri veiðimenn halda heim á leið með aflafréttir í farteskinu. Veðurspáin fyrir helgina er góð, hlýindi og að mestu hæglætis veður og lítil úrkoma og því er veiðimönnum ekki til setunnar boðið; kíkið endilega í vötnin.
En hvaða fréttir eru s.s. að hafa úr vötnunum nú í vikunni? Veiðimenn sem voru á vaktinni við Hlíðarvatn í gærkvöldi náðu 6 bleikjum útí Hlíðarey og urðu varir við fleiri. Veðrið var samt ekki sérstaklega gott hjá þeim, austan strekkingur og skúrir. Aðrir veiðimenn sem veiða.is hafði spurnir af voru í Þingvallavatni í vikunni, þjóðgarðinum, settu í hátt í 10 bleikjur á skömmum tíma. Gíslholtsvatnið tekur þessa dagana yfirleitt vel á móti veiðimönnum, bæði er urriði og bleikjan að veiðast í vatninu. Auðsótt er að fá góða leiðsögn í vatnið í Gíslholti. Ágæt veiði hefur nú verið í Laugarvatni og Apavatni en svo virðist sem fiskurinn sé einnig að fikra sig niður í Hólaá, en leyfi í henni fylgja leyfum í vötnunum.
Framundan er Hvítasunnuhelgin, löng helgi og er nú um að gera að skella sér í eitthvert vatnið, jafnvel með fjölskylduna alla og fá smá snert af sumri beint í æð.