Hlutverk Veiðimálastofnunar er m.a. að rannsaka fiskistofna í ám og vötnum. Ein þeirra leiða sem starfsmenn stofnunarinnar fara í þeirri vinnu er að rannsaka hreistursýni sem tekin eru af fiskum sem veiðast. Því er mikilvægt fyrir veiðimenn að vera duglegir að skila inn sýnum, í þeim ám þar sem þess er óskað. Eftirfarandi frétt birtist á vef Veiðimálastofnunar í dag:

 

Lax er fremur skammlíf fisktegund sem bæði nýtir ferskvatn og sjó á lífsferli sínum. Í íslenskum ám tekur það laxinn á bilinu 3 – 5 ár að ná gönguseiðastærð, en þá yfirgefa laxaseiðin árnar og hefja sjávardvöl sem tekur 1 – 2 ár, eða fram að þeim tíma er laxarnir verða kynþroska og halda heimleiðis í uppeldisárnar til hrygningar. Flestir laxar drepast veturinn eftir hrygningu en lítill hluti þeirra nær að ganga til sjávar og snúa aftur til hrygningar.

Ummerki sjást í hreistri laxa um hrygningu, svokölluð gotmerki, vegna eyðingar hreistursins á jöðrum þeirra vegna uppsogs líkamans á kalki. Hlutdeild laxa sem áður hafa hrygnt er breytilegt milli vatnasvæða, en reyndist að meðaltali á bilinu 3 – 9,8% í rannsóknum á hreistursgagnaröðum úr 8 íslenskum ám (Halla Kjartansdóttir 2008). Sjaldgæft er að sami laxinn nái að ganga oft til hrygningar.

Í rannsóknum á hreistursýnum úr Krossá á Skarðsströnd árið 2012 kom fram hreistursýni af laxi, 75 cm hrygnu sem var 3,5 kg að þyngd (sjá mynd). Hrygnan klaktist út sem seiði sumarið 2003 og gekk í fyrsta sinn til sjávar vorið 2007 eftir 4 ára dvöl í ferskvatni. Haustið 2008 kom laxinn í fyrsta sinn til hrygningar sem eins árs lax úr sjó. Síðan þá hafði laxinn náð að lifa af hrygningu og ganga til sjávar á hverju ári, þar til 24. ágúst 2012, er langri laxaævi lauk. Þrátt fyrir háan aldur náði fiskurinn ekki mikilli stærð, þar sem sjávardvölin eftir hverja hrygningu var stutt og orkan fer mest í að þroska kynkirtla á ný en lítið til vaxtar. Bent hefur verið á að tilvist endurtekinnar hrygningar í laxastofnum eykur fjölbreytileika í lífssögu stofna, hámarkar endurheimtu þeirra og eykur stöðugleika stofnanna (Klemetsen o.fl. 2003).

Fréttina má lesa inná veidimal.is, ásamt heimildarlista. Sjá hér.