Laugardalsá er ein þeirra áa sem skipti um húsráðendur nú í vetur. Lax-á hefur verið með ána í mörg ár en nú eru komnir nýjir leigutakar. Formleg undirskrift Veiðifélagsins og nýrra leigutaka átti sér stað á föstudaginn. Nýjir leigutakar eru Guðmundur Atli Ásgeirsson, Helgi Guðbrandsson og Jóhann Birgisson. Samhliða því að nýjir leigutakar tóku við ánni, voru nýjar veiðireglur samþykktar og miða þær meðal annars að því að styrkja og byggja upp stofn árinnar.
Næsta sumar verður einungis leyfð fluguveiði í Laugardalsá og kvóti settur á sem er 1 lax á stöng á dag. Síðasta sumar var maðkur einnig leyfður og enginn kvóti á þann fjölda laxa sem heimilt var að drepa í ánni.
Vel hefur gengið að bóka hjá nýjum leigutökum fyrir komandi sumar. Síðasta sumar var fín veiði í Laugardalsá þegar 404 laxar komu á land á stangirnar 3.