Laxá á Ásum er ein af víðfrægustu perlum laxveiðinnar. Í gegnum tíðina hefur óhemju mikið af laxi veiðst á stangirnar tvær sem leyfðar eru í ánni, svo leitun er að öðru eins. 30 ára meðaltalsveiði í ánni er 1.007 laxar. Veiðitímabilið er einungis 82 dagar.
Laxá á Ásum er ca. 270 km frá Reykjavík, rétt sunnan Blönduós. Áin á uppruna sinn í Laxárvatni og rennur ca. 14 km á leið sinni í ós árinnar. Elstu veiðiheimildir úr ánni ná allt aftur til 13. aldar og herma sagnir að strax þá hafi áin verið þekkt fyrir mikið magn af laxi. Í gegnum aldirnar var veiðiréttur í ánni oft upphaf mikilla deilna. Öll netaveiði hefur verið bönnuð í ánni frá árinu 1940 og síðustu árin hefur fluga verið eina leyfða agnið enda eru fáar ár sem bera fluguna jafn vel og Ásarnir.
Áin er lítil og frekar viðkvæm en þrátt fyrir það gengur gríðar mikið magn af laxi í hana ár hvert og ef skilyrðin eru eðlileg geta menn lent í svakalegum ævintýrum. Það er ekki að ástæðulausu að hróður hennar hefur borist víða. Í ánni hafa veitt bæði konungsbornir jafnt sem heimsfrægir veiðimenn og listamenn, enda er fegurð árinnar og umhverfið óviðjafnanlegt og menn koma til veiða í ánni, ár eftir ár.
Árið 2011 unnu þeir Kristinn Kristinsson og Friðþjófur Árnason skýrslu um ánna fyrir veiðifélag Laxár á Ásum. Í henni kom m.a. fram að Laxá á Ásum er í hópi frjósömustu vatnsfalla á Íslandi sem endurspeglast í miklum seiðaþéttleika og góðri laxveiði. Frjósemi vatnsfalla ræðst m.a. af gerð berggrunnsins, viðstöðutíma vatns og gróðurfari á vatnasviðinu. Gögn um seiðaþéttleika og ástand seiða úr seiðamælingum í Laxá á Ásum ná aftur til ársins 1982, að fáeinum árum undanskildum. Hluti af vinnu við skýrsluna var að mæla seiðaþéttleika í ánni og var það gert í ágúst 2011. Mælingar sýndu að vísitala á þéttleika laxaseiða í Laxá á Ásum árið 2011 var yfir meðaltali annarra ára sem gögn ná yfir. Hægt er að lesa skýrsluna hér.
Sumarið 2012 var ekki gott í Laxá á Ásum. Lítið veiddist og lítið gekk af laxi í ánna, líkt og gerðist í flestum ám á landinu. Ljóst er að þar hefur komið til fæðuskortur laxaseiða í hafi eða aðrar hörmungar, eftir að seiðin gengu til sjávar.
Nýjir leigutakar, Salmon Tails, tóku við Laxá á Ásum haustið 2011. Strax vorið 2012 innleiddu þeir ákveðnar breytingar við ánna þegar nýtt glæsilegt veiðihús var tekið í notkun. Leysti það „gamla“ húsið af hólmi sem var búið að þjóna veiðimönnum vel í langan tíma. Önnur breyting sem þeir gerðu var að þeir opnuðu nýtt veiðisvæði, ósasvæði Laxá á Ásum, fyrir veiðimenn. Óhætt er að segja að svæðið hafi komið á óvart. Vel veiddist af bleikju og sjóbirtingi og er ljóst margir munu sækja svæðið aftur heim næsta sumar. Haustið 2012 tóku leigutakarnir einnig yfir Fremri Laxá, ánna sem rennur í Laxárvatn. Sú á er ein af betri urriðaám landsins.
Laxá á Ásum hefur lengi verið í hópi albestu laxveiðiáa landsins en hún hefur einnig lengi verið á listum útum allan heim yfir þær ár sem mælt er með að veiðimenn sæki heim, a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni. Ljóst er þó að allir veiðimenn komist ekki í Laxá á Ásum þá eiga þeir þess kost að njóta náttúru og góðrar veiði á vatnsasvæði árinnar; á ósasvæðinu eða í Fremri Laxá.