Veiðimálastofnun gaf í vikunni út skýrslu um laxveiðisumarið 2014. Eins og fyrir löngu var ljóst þá var sumarið eitt það lélagasta sem við höfum upplifað hér á landi. Heildarveiði var um 32.400 laxar sem er 7% minni veiði en 2012 og um 21% undir langtímameðtali (40.861). Í skýrslunni velta Sérfræðingar veiðimálastofnunar fyrir sér ástæðum þessa hörmungar sumars í laxveiðinni.

Kemur þar fram að ástandið í ánum hefur verið gott þegar seiðin gengu til sjávar: Hitastig nærri meðaltali – Vísitala væntanlegra gönguseiða hefur verið yfir meðallagi í öllum landshlutum síðustu árin – ganga seiða til sjávar virðist hafa verið með eðilegu móti vor og sumar 2013.

Að framansögðu þá má ljóst vera að afföll seiðanna virðist hafa átt sér stað í hafi. Hvort um raunveruleg afföll er að ræða eða hvort seiðin hafi verið neydd til að taka sér lengri tíma í sjó til að stækka, mun koma í ljós næsta sumar. Í skýrslunni kemur fram að sjór hér við land hefur hlýnað mikið síðustu árin og vistkerfi hafsins við Ísland tekið mikilum breytingum. Nú má finna sjávartegundir í kringum landið sem ekki voru hérna áður í svo miklu mæli og er Makríllinn nefndur sérstaklega. Hugsanlegt er að hann keppi við laxinn um fæðu, sérstaklega fyrst í sjávardvöl laxins. Hér má finna skýrslu veiðimálastofnunnar.

Skýrsla Veiðimálastofnunnar gefur bæði von og vekur ugg – Árnar eru að skila sínu, enn sem komið er, en óvissan liggur í hafinu. Hvað þar er að gerast veit enginn nákvæmlega. Þessi afföll sáum við frá 2011 – 2012 en ekki frá 2012 – 2013 en svo aftur frá 2013 – 2014. Hver var munurinn í aðstæðum í hafi á þessum árum og hvers má vænt á næsta sumri. Sumarið 2013 voru tekin hreystursýni af „smálöxum“, 64-69cm löngum, sem gáfu vísbendingu um að þeir hefðu dvalið 2 ár í sjó. Hvort næsta sumar verði borið uppi af slíkum löxum eða hvort við fáum annað sumar eins og 2013 eða jafnvel annað eins og 2014, verður tíminn að leiða í ljós. Hvað sem gerist þá erum við komin inná nýtt tímabil óvissu sem mun líklega standa í einhver ár til viðbótar.

[email protected]