Við höfum í sumar gert perlunni á austurlandi, Norðfjarðará, nokkuð góð skil enda fyllilega ástæða til. Veiði í ánni síðustu ár hefur verið stöðug og litlar sveiflur á stofni árinnar. Í ár lítur áin jafnvel enn betur út enda sýna þær veiðitölur sem nú liggja fyrir, að um met sumar sé að ræða.

Veitt er á 3 stangir í Norðfjarðará og er leyfði veiði á flugu, maðk og spún. Veiði síðustu ár hefur verið í kringum 700 bleikjur að jafnaði og 30-40 laxar. Um 20 merktir staðir eru í ánni og fjölmargir ómerktir. Lykillinn á bak við traustan stofn árinnar kann að vera sá að efsti hluti hennar, ca. 3 km, er friður fyrir allri veiði og fá því uppeldisstöðvarnar í ánni að vera alveg í friði.

Veitt er til 20. september í Norðfjarðará. Í lok dags, 17. sept, voru 1.072 bleikjur skráðar í veiðibókina og 11 laxar. Ef litið er til síðustu 12 ára, þá hefur mest veiðst áður 841 bleikja sumarið 2005. Um met sumar er því að ræða í Norðfjarðará.