Í dag komu nýjar laxveiðitölur inná vef Landssambands Veiðifélaga, angling.is. Þær sýna að svipaður gangur var síðustu viku og áður í helstu ám landsins. Eystri og Ytri Rangá halda sínu striki og stefna hraðbyri á 2.000 laxa og ná því væntanlega í dag eða á morgun. Aðrar ár eru í rólegum gír en vonandi gerir rigningin þessa dagana, á suður og vesturlandi, eitthvað fyrir þær ár sem þar eru.

Ein þeirra áa sem skilað hefur fínni veiði lengstum í sumar, er Miðá í Dölum. Miðá er 3 stanga á sem þekkt er fyrir ágæta lax og bleikjuveiði en getur orðið ansi viðkvæm í þurrkum, eins og margar systur hennar í Dölunum. Holl sem var að veiðum í Miðá nú um verslunarmannahelgina, líkt og margar aðrar verslunarmannahelgar, var nokkuð ánægt með helgina þótt áin hafi oft verið vatnsmeiri. Hollið skilaði 16 löxum og yfir 30 bleikjum í rólegri fjölskylduveiði.

Miðá er nú komin í um 250 laxa en ekki höfum við tölu á bleikjum sem hafa veiðst í henni en höfuð það eftir veiðimönnum sem voru þar um helgina að þeim finnst heldur meira vera af bleikjunni nú, en síðustu ár.