Norðfjarðará fellur til sjávar í Norðfjörð, innanverðan, en stutt er þaðan út í Neskaupstað. Upptök hennar er á hálendinu inn af firðinum. Á leið hennar til sjávar falla í hana Selá og Hengifossá ásamt nokkrum smærri lækjum.
Norðfjarðará er vel geymt leyndarmál í stangveiðinni en hún er ein af 10 bestu bleikjuám landsins.
Veiðin í þessari perlu á austurlandi hefur verið nokkuð jöfn undanfarin ár og aðsókn í ánna hefur verið gríðarlega góð. Í ánna gengur mikið af sjóbleikju og veiðast að jafnaði rúmar 700 bleikjur. Norðfjarðará er ein fárra bleikjuáa sem ekki hafa lent í alvarlegri niðursveiflu síðustu ára en eins og við nefndum um daginn, þá hefur heildar bleikjuveiði á austurlandi ekki dalað að neinu marki síðustu 10 ár.
Fyrir utan sterkan bleikjustofn þá veiðast 30-40 laxar á sumrin og fæstir þeirra eru undir 8 pundum. Um 20 merktir veiðistaðir eru í ánni auk fjölmargra sem ekki er merktir en eru breytilegir á milli ára. Síðustu ár hefur fluguveiði verið allsráðandi í ánni þó einnig sé leyfilegt að veiða á maðk og spún.
Helstu flugur eru til að mynda Krókurinn, Heimasætan og Bleik og blá en svo er flugan Freddi local leynivopn á svæðinu.
Framan af sumri er veiðin mest í neðri hluta árinnar en þegar kemur fram yfir miðjan júlí er fiskur komin á all flesta veiðistaði árinnar. Þess má geta að efsti hluti hennar, ca. 3 km, er friðaður fyrir allri veiði og fá því uppeldisstöðvarnar í ánni að vera alveg í friði sem gerir það að verkum að áin er mjög sjálfbær.
Veitt er á 3 stangir í ánni og verð veiðileyfa er stillt í hóf, kosta á bilinu 3-9 þús kr. Veiðileyfin eru seld í Veiðiflugunni á Reyðarfirði og Fjarðarsport á Neskaupstað.
Meiri upplýsingar er hægt að fá um Norðfjarðaánna hér inni á veiða.is