Norðfjarðará fellur til sjávar í Norðfjörð, innanverðan, en stutt er þaðan út í Neskaupstað. Upptök hennar er á hálendinu inn af firðinum. Á leið hennar til sjávar falla í hana Selá og Hengifossá ásamt nokkrum smærri lækjum. Norðfjarðará er vel geymt leyndarmál í stangveiðinni en hún er ein af 10 bestu bleikjuám landsins.

 

Í sumar fylgdumst við vel með veiðinni í Norðfjarðará. Veiðin fór bærilega af stað strax í byrjun vertíðar, um miðjan júní, en náði svo hámarki í ágúst. Veiðin í í Norðfjarðará hefur verið mjög stöðug síðustu ár. Sú niðursveifla sem var í mörgum bleikjuám landsins á síðasta áratug virðist hafa farið fram hjá Norðfjarðará. Að jafnaði veiðast um 700 bleikjur í ánni en sumarið í sumar sló öll met. Heildarveiði var 1.142 bleikjur og 11 laxar. Bleikjuveiðin í sumar var því meira en 60%
umfram meðalveiði. Þó svo að leyfð sé veiði bæði á flugu, spún og maðk í ánni, þá veiðast lang flestir fiskar á flugu, eða yfir 80%. Heimamenn og kunnugir beita mikið „leynivopni“ árinnar, honum Freddy en einnig er þurrfluguveiði að færast í vöxt.

Veitt er á 3 stangir í Norðfjarðará. Framan af sumri er veiðin mest í neðri hluta árinnar en þegar kemur fram yfir miðjan júlí er fiskur komin á all flesta veiðistaði árinnar. Kunnugir segja að einn af lykil þáttunum á bak við stöðugleika árinnar sé að efsti hluti hennar, ca. 3 km, er friður fyrir allri veiði. Þar fær bleikja því að vera í friði fyrir öllu áreiti sem tryggir viðgang stofnsins.

Hér að neðan má sjá þróun veiði í Norðfjarðará frá árinu 2004.

Hér er hægt að lesa nánar um Norðfjarðará.