Þverá í Haukadal er ný hér inni á veiða.is. Þverá er 13 km löng laxveiðiá sem rennur í Haukadalsá rétt fyrir neðan veiðihús Haukunnar, í veiðistaðinn Blóta. Veiðin er oft frábær í þessari fallegu á en hún hefur notið þess að hafa ekki mikið verið stunduð.
Þverá er í Þverárdal sem er inndalur af Haukadal. Dalurinn er alveg óbyggður og umhverfi hans er ósnortið. Til þess að komast að Þverá er vegslóði ekinn upp dalinn en þar sem hann endar tekur við ganga niður í dalinn og með fram allri ánni. Þverá er tilvalin fyrir þá sem njóta þess að skella bakpokanum á bakið og leita nýrra ævintýra í Á sem geymir fallega hylji sem sjaldan eru heimsóttir en geyma væna laxa sem þar eiga heimkynni.
Við höfum tekið nokkra daga í Þverá í sölu hingað inná veiða.is. Um er að ræða staka daga þar sem veitt er frá morgni til kvölds. Þar sem áin er lítið stunduð er mjög líklegt að þeir sem grípa þessa daga komið að ánni vel hvíldri.