Um og eftir áramót fylgdumst við með útboði í veiðirétt í Eldvatni í Meðallandi. Þrjú tilboð bárust í veiðiréttinn og eftir rúmlega mánaðar yfirlegu þá ákvað stjórn veiðifélagsins að taka næst hæsta tilboðinu sem barst en það var frá Verndarsjóði vestur-skaftfellska sjóbirtingsins. Pálmi Gunnarsson er talsmaður þess félags. Ekki var þó einhugur í stjórn veiðifélagsins um þessa ákvörðun. Dráttur var á að skrifað yrði undir samning um leiguréttinn og nú hefur fyrri ákvörðun verið dregin til baka og búið er að skrifa undir við hæstbjóðandann í útboðinu, Veiðifélagið Unubót. Erlingur Hannesson er talsmaður þess félags.

Eldvatnið hefur verið ein af betri sjóbirtingsám landsins en hún hefur verið í smá lægð undanfarin ár. Í útboðslýsingu með útboðinu voru ýmiss skilyrði sett sem eiga að styðja við sjóbirtingsstofninn á svæðinu m.a. það að sleppa eigi öllum birtingi sem veiðist. Skv. Erlingi Hannessyni stendur rúmlega 20 manna hópur veiðimanna að Veiðifélaginu Unubót. Stefnt er að því að Eldvatnið fari í almenna sölu á næstu vikum og verður það kynnt nánar síðar. Leigusamningurinn sem gerður var við Unubót nær frá 2013-2020. Leiguupphæð á ári er 5,4 mkr. Leyfð er veiði á 6 stangir í Eldvatni og eingöngu er leyfð veiði á flugu.

Eins og áður sagði þá var ekki einhugur um fyrri ákvörðun stjórnar veiðifélagsins og á Aðalfundi félagsins sem haldinn var fyrir nokkrum vikum, varð ákveðin stefnubreyting í málinu sem leiddi til undirskriftar við Unubót í gær. Í apríl voru um 50 birtingar færðir til bókar í vorveiðinni í Eldvatni.

[email protected]