Leirá er í Leirársveit, skammt frá Laxá sem er líklega þekktari áin í sveitinni. Í henni veiðist bæði lax og sjóbirtingur. Leirá er frekar nett veiðiá. Eingöngu er veitt á 1 stöng í Leirá. Leyfilegt agn hefur verið fluga og maðkur. Síðustu ár hafa veiðst á bilinu 50-60 laxar á sumri og eitthvað svipað af sjóbirting.

Fyrr í vetur óskaði veiðifélag Leirár í Leirársveit eftir tilboðum í veiðirétt árinnar. Sami aðili, Örn Helgason, hefur haft ána á leigu síðustu 30 ár. Þrjú tilboð bárust í veiðiréttinn. All nokkurn tíma tók Veiðifélagið að komast að niðurstöðu en nú hefur samningur verið gerður við nýjan leigutaka, Jón Svan Grétarsson. Samningurinn er til 3 ára. Að sögn Ásgeirs, hjá veiðifélagi Leirár, var um hækkun að ræða á leiguupphæðum frá fyrri samningi. Nýr leigutaki hefur ekki gefið upp hvort einhverjar breytingar verði gerðar á veiðitilhögun í Leirá í sumar.

Nú höfum við á síðustu 2 vikum heyrt af 2 útboðum þar sem um hækkun leiguverðs er að ræða á milli samninga. Í báðum tilfellum er um að ræða tiltölulega smáar ár sem ekki hafa verið áberandi í veiðiheiminum og hafa ekki verið boðnar út á undanförnum árum.

[email protected]