Áhugamenn um veiði eru enn að jafna sig á fréttum gærdagsins; höfnun Veiðifélags Norðurár á öllum tilboðum sem bárust í útboði á veiðirétti árinnar. Alls samþykktu 28 af 32 fundarmönnum tillögu um að hafna þeim tilboðum sem bárust í útboðinu. Höfnunin í gærkvöldi vekur upp ýmsar spurningar. M.a. um þær ólíku væntingar sem Veiðifélög og tilboðsgjafar augljóslega hafa til þróunar innlends veiðileyfamarkaðar í dag.
Á undanförnum vikum höfum við fylgst með útboðum á veiðirétti í Mýrarkvísl, Norðurá og ná síðast Eldvatni í Meðallandi. Um er að ræða ólík veiðisvæði en niðurstaða útboðanna var með sama hætti; tilboðin sem bárust voru undir væntingum veiðiréttarhafa. Í tilfelli Mýrarkvíslar var ákveðið á hafna öllum tilboðum og „friða“ ána í eitt sumar og sjá svo til. Veiðifélag Norðurár hafnaði öllum tilboðunum og þau tilboð sem opnuð voru í útboði Eldvatns um helgina, voru klárlega undir væntingum Veiðifélagsins.
Það er eðlilegt að þeir sem bjóða í veiðisvæði í dag taki mið af umræðu líðandi stundar, bæti við sýnum hugmyndum í jöfnuna og fái út tölu sem þeir telja raunhæfa. Það er líka eðlilegt að veiðréttarhafar taki mið af þeim samningum sem þeir voru með, líti til umræðu líðandi stundar og bæti við eigin hugmyndum um verðmæti réttindanna og fái út tölu sem þeir telja sanngjarna. Í dag virðist hinsvegar óravegur vera á milli hugmynda þessara tveggja aðila og líklegt má telja að einhver misseri taki fyrir þá að nálgast aftur. Hvar þeir mætast mun að sjálfsögðu ráðast að miklu leyti á þróun næstu mánaða hér á landi í veiði, verðlagi og velsæld.
Svo til að enda umræðuna um Norðurá þá er alveg ljóst að mikill leiði var kominn í samskipti SVFR og veiðifélagsins. Samstarf þessara tveggja aðila hefur staðið í um 67 ár og kannski eðlilegt að leiðir skilji nú. Óánægju hefur verið vart í nokkuð langan tíma hjá báðum aðilum og hefur hún farið vaxandi. Fyrir báða aðila er tímabært að horfa fram á veginn og vonum við að báðum gangi vel að finna sér nýja samstarfsaðila.