Laxá í Mývatnssveit opnaði í gær en eins og flestir vita þá er þetta svæði af mörgum talið eitt besta urriðasvæði heims. Aðstæður fyrir norðan voru erfiðar; Áin um 50 cm hærri en í síðustu opnunum og snjóbráð mikil. Sumarið virðist þó vera að koma fyrir norðan ef marka má hitatölur en hæst fór hitinn í um 15° í gær. Fyrsta vaktin var róleg, rúmlega 20 fiskar komu á land. Veiða.is sló á þráðinn í morgun til Júlla í Flugukofanum sem er í opnunar hollinu.

Júlli sagði að þrátt fyrir að meira vatn væri í ánni, þá fiskaðist ágætlega: „Við þurfum að hafa meira fyrir því að finna urriðann en áður, enda staðirnir mikið breyttir í þessu vatni. Urriðinn er hinsvegar mjög vel haldin og mikið af vænum fiskum, á bilinu 53-60 cm. Það er að sjatna í ánni og þeir sem koma á eftir okkur gætu lent í moki.“ Skurðurinn er að gefa mest sagði Júlli að lokum.

Snjórinn og bleytan hefur sett nokkurn strik í reikninginn hjá veiðimönnum fyrir norðan sem lýsir sér meðal annars í því að hluti veiðisvæðisins, Brettingsstaðir og Hamar, eru ekki veiddir sökum aurbleytu. Eins og sést á þessari mynd hér til hliðar sem Guðmundur Stefán Maríasson tók, þá voru aðstæður erfiðar í gær en aflinn góður.

{gallery}laxa{/gallery}

[email protected]