Fyrir skömmu óskuðu veiðiréttarhafar í Fossá í Þjórsárdal, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Skógrækt ríkisins, eftir tilboðum í veiðirétt árinnar á árabilinu 2013-2016, að báðum árum meðtöldum. Frestur til að skila inn tilboðum rann út í gær.
Hátt í 20 aðilar skiluðu inn tilboðum. Hæstu tilboðin voru flest á bilinu 2,9-4 m.kr en lang hæsta tilboðið átti Hreggnasi uppá 8,5 m.kr., fyrir allt útboðstímabilið. Um er að ræða mikla hækkun frá síðasta samningi um veiðirétt í ánni. Má segja að um vinkilbeygju sé að ræða frá síðustu útboðum, þar sem útboðsupphæðir náðu ekki lágmarksviðmiðum veiðiréttareigenda.
Samkvæmt heimildum veiða.is hljóðaði samningur við fyrri leigutaka, 2009-2012, uppá kr. 357.000 pr. ár. Hæsta tilboðið nú gerir ráð fyrir um 2,1 m.kr. pr. ár. Hækkunin er því margföld.
Ákveðið verður fyrir lok vikunnar, hvaða tilboði verður tekið í veiðirétt í Fossá.