Ormarsá á Sléttu er s.s. ekki mikið í umræðunni, veiðimanna á milli. Helgast það kannski fyrst og fremst af þeirri staðreynd að hún hefur ekki verið í almennri sölu í mörg ár. Svisslendingurinn Doppler var með ána á leigu í 15 ár, til ársins 2010 þegar hún fór í útboð. Við henni tók svo hópur innlendra veiðimanna sem hafa skipt dögum í henni á milli sín. Ormarsá er 4 stanga laxveiðiá norður á Melrakkasléttu, um 750 km frá Reykjavík. Ingvar Eyfjörð var í ánni ásamt fleirum nú í vikunni og náði hann þá þessari flottu hrygnu hér til hliðar.

Hollið náði samtals fimmtán löxum í Ormarsá og þar á meðal þessum 2 löxum sem hér sjást á myndum. Laxinn hér til hliðar veiddi Margrét Knútsdóttir, eiginkona Ingvars en hún þakkaði fallegum nöglum það að þessi 65cm hængur lét glepjast af Undertaker á veiðistaðnum Berginu. Hrygnuna veiddi Ingvar á veiðistaðnum „Sveinsholu“ og viktaði hún 15 pund. Hann sendi okkur þessa sögu hér að neðan af því þegar hann náði í þessa flottu Hrygnu.

Laxahvíslarinn
Gunnar Örlygsson laxahvíslari var búinn að fara nákvæmlega yfir það með veiðimanninum hvernig skyldi bera sig að. Hann sannfærði veiðimanninn að þarna væri stórfiskur og köstin skyldu mjúk og áferðafalleg og fiskurinn tæki milli tveggja skarða í barðinu. Þegar hann tæki, ekki ef, mætti alls ekki rjúka til og rífa stöngina upp, fiskurinn þyrfti að fá að snúa sér. Fyrir óvanan veiðimann er það áskorunn. Allt skyldi vera rólegt og yfirvegað, stórlaxinn myndi ekki sætta sig við annað. Síðan gekk laxahvíslarinn á brott. Svört micro keila var sett undir og vandað til kasta. Það var eins og við manninn mælt, í þriðja kasti kom þungt yfirvegað högg á línuna, á milli skarðanna og veiðimaðurinn, stútfullur af adrenalíni beið þar til seinna höggið kom og hátíðin hófst. Eiginkonurnar, þær Margrét og Guðrún Hildur (Dunna), sátu í 200 m fjarlægð á hól og sögðu hvor annarri “veiðisögur”. Eftir að ljóst var að fiskurinn var á og enginn vafi að þarna yrði tekist á, kallaði veiðimaðurinn í eiginkonuna og bað hana fyrir háfnum. Liðu nú nokkrar mínutur og ekkert fararsnið á konunum. Aftur var kallað og hlátrasköll komu til baka. Í þriðja sinn var kallað og þá með nokkurri ákveðni “náið í helvítis háfinn!” Loks stóðu konurnar upp, önnur hljóp til háfsins og saman leiddust þær yfir ána með háfinn, en í þann mund var laxahvíslarinn mættur og tók yfir stjórnun löndunarinnar. Allt yfirvegað og fumlaust. Margrét eiginkona veiðimannsins var sett á háfinn, Dunna kona Gunnars á myndavélina og hvíslarinn gaf veiðimanninum heilræði enda stórlax á ferð. Löndunin gekk svo fumlaust fyrir sig, Margrét háfaði 84 sm hrygnuna með glæsibrag, Dunna myndaði öll herlegheitin og það var ljúf stund sem vinirnir áttu, þegar hrygnan hafði jafnað sig á átökunum sem vörðu í 30 mínútur og tók sund út í hylinn sinn aftur. Þetta var stórkostlegt ævintýri í ægifallegu umhverfi Ormarsár í veðri eins og það gerist best á Íslandi. Veiðimaðurinn vildi þó fá skýringar á seinkomu kvennanna og ekki lá á þeim: “Við bara héldum að þú værir að reyna að lokka okkur til þess að vaða yfir til þín og þú þættist bara vera búinn að setja í lax”.
Ingvar Eyfjörð.

[email protected]