Veiða.is kíkti við á ósasvæði Laxá á Ásum í gær. Hér á vefnum hefur verið hægt að nálgast veiðileyfi á þetta svæði og náðum við nú að kynnast því af eigin raun og líkaði okkur vel, þrátt fyrir hvassviðri og kulda.
Eins og nafnið ber með sér þá skipta sjávarföllin nokkru máli þegar svæðið er veitt en þó er það reynsla síðustu daga að fiskur haldist betur á svæðinu en hægt er að segja um mörg önnur ósasvæði. Á aðfallinu í gær fylgdumst við með bleikjunni ganga inn ósinn í ætisleit, svamla um í yfirborðinu og narta í flugur veiðimanna sem reyndu að finna flugu við hæfi. Á rúmri klst. var sett í fjöldan allan af bleikjum, en tökur voru grannar og fáar festu sig vel. Mestan áhuga sýndu þær Dýrbítnum, bleikum Nobbler og flugunni Rán. Við munum fjalla nánar um Rán í næsta fréttabréfi veiða.is en Rán er ný fluga eftir Júlíus Gunnlaugsson í Flugukofanum. Þegar ósinn var yfirgefinn í gærkveldi, sýndi hitamælirinn °2 og vindhviðurnar sem hristu bílinn minntu örlítið á þá mótmælendur sem ýttu við bíl D.O. í búsáhaldabyltingunni um árið, en það er nú önnur saga.
Þegar svo mætt var niður að ós í morgun, hafði heldur lægt og hiti aukist mikið, stóð í °3. Rólegra var um litast í ósnum heldur en í gær en þó sýndi vænn birtingur bleikum nobbler áhuga áður en haldið var heim á leið. Reyndist hann 54cm og 1,7 kg.