Veiðimaður sem mætti í Blöndu á eftir opnunarhollinu um daginn setti í all ótrúlegan „fisk“ á breiðunni og þurfti hann að stinga sér til sunds til að ná honum á land.
Rólegt var almennt í hollinu en þegar veiðimaðurinn átti breiðuna í seinna skiptið, rak hann augun í þennan veglega GSM síma sem lá á rúmlega meters dýpi í grjótinu. Eftir töluverðar vangaveltur og eins og eina eða tvær sígarettur, ákvað veiðimaðurinn að láta sig hafa það og stakk sér í beljandi ánna eftir símanum. Þetta var hans eini afli í hollinu. Þegar heim var komið, tók hann símann í sundur og skellti honum á ofninn. Þegar hann svo var orðinn þurr, setti hann símann saman og ótrúlegt en satt, hann virkaði. Veiðimaðurinn ákvað að reyna að hafa upp á eiganda símans og það tókst. Hann náði í hann þar sem hann stóð útí annarri veiðiá, með annan síma í vasanum. Við getum rétt ímyndað okkur undrun mannsins þegar hann heyrði söguna en hann sagðist sjálfur hafa misst símann þegar hann hrasaði við veiðar á breiðunni nokkrum dögum áður.