Seltjörn á Reykjanesi er veiðivatn sem margir þekkja en það er örstutt frá þjóðveginum sem liggur til Grindavíkur. Vatnið hefur verið vinsæll áfangastaður veiðiáhugamanna í langan tíma og frábær staður til að æfa fluguköstin. Mikið af fiski er í vatninu en í gegnum tíðina hefur töluvert af fiski verið sleppt í það, bæði urriða, bleikju og regnbogasilungi. Einnig er staðbundinn stofn í vatninu. Reglulega heyrast sögur af boltafiskum sem koma á land.
Reykjanesbær hefur yfirumsjón með svæðinu en bærinn fékk í vor, Júlíus Gunnlaugsson hjá Flugukofanum til að annast svæðið, selja veiðileyfi og þjónusta veiðimenn. Svæðið er fjölskylduvænt og gott aðgengi er að vatninu. Veiðitími í sumar er frá kl. 8 á morgnana til kl. 22 á kvöldin. Leyft er að veiða á flugu, maðk og spún. Hægt er að nálgast veiðileyfi í síma 775 3400. Verði veiðileyfa er stillt í hóf, þau kosta kr. 1.500 dagurinn.
Nánari upplýsingar um Seltjörn er hægt að finna inná www.veida.is.