Við sögðum í gær frá holli sem var að taka við í Geirlandinu í gær við kjöraðstæður. Væta var um helgina og nú er áin að sjatna. Á fyrstu vaktinni í gær voru stangirnar 4 með 2 birtinga, báða 3,3 kg. Nú höfum við fréttir frá morgunvaktinni.
Aðstæður til veiða voru góðar í morgun, hægviðri, hiti °6-9 og skýjað með köflum. Sáu veiðimennirnir töluvert líf víða í ánni. Náðu þeir 9 birtingum frá 4 pundum. Þeir stærstu voru 12 og 12,2 pund. Fengust fiskarnir frá Ármótum og uppí Mörtungunef. Stærsti fiskurinn kom á svartan Toby í Kleifarnefinu.
Hollið er nú komið með 11 birtinga eftir tvær vaktir sem telst nú ágætt. Við heyrum vonandi meira frá þeim áður en yfir lýkur. Veiðimennirnir heita Falur Daðason og Daði Þröstur Þorgrímsson.