Veiðin í Straumfjarðará hefur farið vel af stað. 56 laxar hafa veiðst á þeim 14 dögum sem veiðin hefur staðið yfir. Veitt er á 3 stangir í ánni og leyft agn er fluga. Hér til hliðar er Nanna Viðarsdóttir með 85cm hrygnu sem hún veiddi í Bræðrastreng. Landssamband veiðifélaga birti nýjar veiðitölur í dag.
Norðurá, sem hefur skilað útrúlega góðri veiði að undanförnu, trónir á toppnum með 711 laxa. Þess má geta að sumarið í fyrra skilaði í heild 953 löxum í ánni. Í öðru sæti er Þverá/Kjarrá með 417 laxa, Blanda er með 337 laxa og Haffjarðará er komin í 310 laxa. Þar á eftir er Langá með 300 laxa. Flókadalsá er komin í 165 laxa sem er meira en helmingur af allri veiði í ánni í fyrra. Rangárnar fara rólega af stað, sú Eystri er í 164 löxum og sú Ytri er í 108 löxum. Fleiri tölur er hægt að finna inni á angling.is