Veiðiþjónustan Strengir er einn elsti starfandi þjónustuaðilinn við veiðimenn hér á landi. Fyrsta starfsár Strengja var árið 1988 og alla tíð síðan þá hafa starfsmenn þess lagt mikla áherslu á persónulega og góða þjónustu við innlenda og erlenda veiðimenn. Í gegnum árin hefur fyrirtækið komið að leigu á mörgum af bestu lax- og silungsveiðiám landsins. Forstjóri Strengja er Þröstur Elliðason.

Í dag eru Strengir með 4 veiðár á sínum snærum, en þó eru innan Breiðdalsár og Jöklu nokkur veiðisvæði sem eru seld aðskilin. Laxasvæði með 6-8 stöngum er í Breiðdalsá, en einnig silungasvæði neðst fyrir sjóbleikjuna og urriðann efst á vatnasvæðinu. Þar eru samtals 4 stangir og gisting innifalinn án þjónustu. Góð laxveiðivon er líka á þessu svæði. Á Jöklusvæðinu er Jökla I og Fögruhlíðará með 6-8 stangir mest fyrir lax. Fögruhlíðarósinn er svo seldur sér og líklegt að gisting verði innifalinn í veiðileyfinu þar næsta sumar í fyrsta sinn. Jafnframt verður efri hluti Jöklu eða Jökla II eins og svæðið heitir mjög spennandi því bleikja virðist vera að koma þar mikið upp og nú er laxinn farinn að ganga hindrunalaust upp á það svæði.

Undanfarin ár hafa Strengir lítið tekið þátt í útboðskapphlaupinu um ýmiss vatnasvæði á landinu, heldur einbeitt sér meira að fiskirækt og því að búa til ný veiðisvæði. Erfitt er að nefna eitt flaggskip í framboði veiðisvæða hjá Strengjum, árnar eru allar einstakar í sinni röð. Þær eru: Breiðdalsá, Hrútafjarðará, Jökla og Fögruhlíðará og að lokum Minnivallalækur.

En hvernig var sumarið á veiðisvæðum Strengja?

Laxveiðisvæði Strengja fóru ekki varhluta af þeirri niðursveiflu sem var í laxveiðinni í sumar, þó svo að þurrkar og lítið vatn hafi ekki síður haft neikvæð áhrif. En þrátt fyrir allt endaði sumarið bærilega.

Samtals komu 385 laxar á land á Jöklu svæðinu öllu. Ytri aðstæður eins og þurrkar og það að Hálslón fór á yfirfall í ágúst í staðinn fyrir september, kom í veg fyrir að veiðin yrði sambærileg og sumarið 2011. Þá komu 565 laxar á land. Silungsveiðin á svæðinu er í mikilli sókn en í sumar komu tæplega 500 fiskar á land, bæði sjó- og staðbundin bleikja.

Veiðin í Breiðdalsá fór vel af stað en vatn minnkaði hratt þegar leið á júlí og töluvert vantaði upp á að smálaxinn skilaði sér í ánna. Áin gaf 464 laxa og var megnið af þeim stórlax. Meðalþyngdin var um 5 kg. Silungsveiðin var tæpir 600 fiskar, mest staðbundinn urriði á efri svæðum árinnar. Sjóbleikjan, sem var væn í sumar, var treg til að taka enda nóg af æti á ósasvæðinu.

Hrútafjarðará gaf 178 laxa í sumar en meðalveiðin er nálægt 300 löxum. Veitt er á 3 stangir í ánni. Áin getur verið viðkvæm í þurrkum eins og voru í sumar. Um 30% af öllum laxi sem kom á land var sleppt aftur.

Minnvallalækur var með tæplega 300 urriða í sumar og þar af voru 8 fiskar á bilinu 5-8 kg. Í Minnivallalæk er veitt og sleppt. Sumarið 2011 komu um 250 urriðar á land.

{gallery}joklaogbreiddalsa{/gallery}

Sumarið 2013

Undirbúningur fyrir næsta sumar er fyrir löngu hafinn hjá Strengjum. Um hundrað þúsund seiðum var sleppt í hvorra á, Jöklu og Breiðdalsá sem ætti í eðlilegu árferði að skila yfir 1.000 löxum. Það hafa ýmsir látið þau orð falla að „gaman væri nú einhverntímann að kíkja í Jöklu eða Breiðdalsá“. Við hvetjum alla til að láta þann draum rætast næsta sumar.

Sala veiðileyfa fyrir sumarið 2013 er hafinn og er um að gera fyrir áhugasama að kíkja á þau mál inná www.strengir.is. Fyrir þá sem yfirleitt eru mjög óþreyjufullir í að komast í veiði strax í apríl, þá er Minnivallalækur góður kostur. Leyfin eru á sanngjörnu verði og þar er hægt að lenda í miklum ævintýrum. Hér á þessu myndbandi er hægt að sjá einn af þessum boltum sem Minnivallalækur geymir.