Nú styttist óðfluga í veiðitímabilið og þeir sem eru búnir að bóka veiði snemma í apríl, eru byrjaðir og sumir langt komnir, að raða í fluguboxin og yfirfara veiðitöskuna. Ein er sú fluga sem sjóbirtingsveiðimenn hjá SVFK skilja aldrei eftir heima þessi misserin. Hún heitir Suarez. Ef hún „fær að byrja inná“ þá eru allar líkur á að hún skori og skori. Ekki er alveg á hreinu hver er höfundur flugunnar, en veiðin er hún. Í vorveiðinni í fyrra í Flóðinu í Grenlæk, þá var Suarez veiðnasta flugan og náði í tugi birtinga. Sagt er að formaður SVFK, Gunnar Óskarsson, setji vart aðra flugu undir í vorveiðinni fyrir austan.
Júlli í Flugukofanum hefur verið að hnýta Suarez fyrir nokkra félaga í SVFK og fyrir þá sem eru áhugsamir að ná í nokkra Suarez, þá má heyra í Júlla. Suarez hefur yfirleitt verið hnýttur í svörtu og silfri en Júllí hefur sett hann í fleiri búninga eins og sést á meðfylgjandi myndum. Auðvitað má sjá ýmsar samlíkingar með Suarez og nokkrum öðrum straumflugum.
{gallery}suarez{/gallery}
Þess má geta að nú stendur yfir umsóknartímabil hjá SVFK. Stærstu fréttirnar þaðan eru að samningar tókust um framlengingu leigu á Geirlandsá. Samningur var gerður til 3ja ára.