Svalbarðsá er dragá sem á upptök í Djúpárbotnum á Öxfirðingaafrétti. Hún er 37 km löng og fellur í Þistilfjörð. Vatnasvið hennar er 350 ferkm. Meðalveiði áranna 1974 til 2008 er 187 laxar. Leyfð er veiði á 2 til 3 stangir.
Veiðitímabilið í Svalbarðsá nær frá 1. júlí til 14. september. Tímabilið í ár byrjaði vel. Eftir 18 daga voru 94 laxar komnir í bókina og þann 1. ágúst voru þeir orðnir 161. Lokatalan var 274 laxar á stangirnar 2 sem telst góð meðalveiði á stöng. Auðvitað er veiðin ekki í líkingu við veiði síðustu 2ja ára þegar yfir 500 laxar komu á land en veiðin var samt vel yfir meðallagi árinnar og í fullu samræmi við veiði áranna 2002-2008. Svo verður að taka tillit til þess að aðstæður voru s.s. ekki uppá sitt besta, löngum stundum. Þurrkar og súrefnissnautt vatn hefur sín áhrif. Í Svalbarðsá er einöngu veitt á flugu og er öllum fiski sleppt aftur í ánna.
Á málþingi LS um daginn var töluvert rætt um það hvert seiðin fara þegar þau halda til sjávar úr ánnum. Nokkuð ljóst þykir að seiðin af suður og vestur landi halda í vestur og suð-vestur átt en þau sem koma úr ánnum fyrir austan og norð-austan leita frekari ætis fyrir norðan og austan land. Þegar skoðað er hvaða landshlutar hafa staðið niðursveifluna í veiði hvað best af sér, þá er það líklega austur hluti landsins. Það gæti þýtt það að skilyrðin sem seiðin leita í af þeim slóðum, séu betri en þau sem seiðin af suður og vesturlandi hafa útvið Grændlandsstrendur. Hægt verður líklega að fullyrða nánar um það næsta sumar.