Kjósin hefur byrjað vel í sumar. Ólíkt því sem oft hefur verið áður, þá eru veiðimenn að bölva of miklu vatni þessa dagana en ekki of litlu vatni. Inná Hreggnasa er sagt frá því að tveggja daga holl sem lauk veiðum á laugardaginn var með 36 laxa við erfiðar aðstæður. Helming tímans var kolvitlaust veður. Einnig segir inná Hreggnasa:

„Það er alveg ljóst að það verður spennandi að vera við bakka Laxár í Kjós þegar vatn fer að sjatna, en þá gerast oft ævintýri.

Lax hefur nú gengið upp á öll svæði árinnar og er meðal annars búið að setja í laxa á efsta svæði í Skugga, Bláhyl og Þverárstreng svo eitthvað sé nefnt. Ein stöng sem hætti veiðum nú í hádeginu 07.júlí eftir einn dag landaði 8 löxum á tveimur vöktum og misstu annað eins. Þar af var þessi fallega 90.cm hrygna sem Friðleifur Friðriksson fékk í Ármótarhyl í morgun.“

[email protected]