Minnivallalækur hefur farið fremur hægt að stað nú í vor. Þó svo að það hafi komið einn og einn góður dagur, hafa þeir verið fleiri sem hafa skilað litlu. Kalt hefur verið á svæðinu í apríl og fremur vindasamt. Minnivallalæk byggir staðbundin sterkur urriðastofn sem hefur verið í stöðugri sókn síðustu árin. Misfjafnt er, eftir því við hvern er rætt, hvað menn telja besta tímann í læknum. Í Apríl er oft hægt að gera góða veiði, ef þokkalegt veður er og sólin lætur sjá sig en svo þegar kemur inní maí tekur lífríkið við sér og þá færist líf yfir svæðið og urriðinn fer að næra sig af krafti. Veiðimenn sem fóru í Minnivallalæk um helgina fengu að kynnast verri hliðum hins íslenska „vors“.
Eins og íbúar þessa lands muna þá minnti veturinn á sig um helgina með snjókomu á norðanverðum helmingi landsins og frosti og hvassviðri syðra. Hópurinn sem átti helgina í Minnivallalæk fékk að kynnast því. Föstudagurinn var kaldur. Laugardagurinn var kaldari. Sunnudagurinn var hlýrri en þá var varla stætt úti við Á í norðan bálinu og moldviðrið bætti ekki úr skák. Þrátt fyrir þessi erfiðu sklyrði náði hópurinn tveimur urriðum á land, annar er hér að ofan. Hann mældist 62 cm langur og eins og sést þá verður hann örugglega ánægður þegar lífríkið fer af stað í læknum. Þá fær hann tækifæri til að bæta aftur á sig pundunum sem hann tapaði í vetur. Fiskurinn kom á land í Viðarhólma en veiðimaðurinn heiti Marías H Gestsson. Hinn fiskurinn kom á land á Húsabreiðunni en báðir náðust á „litlar pöddur“, „upp stream“. Auk þess að ná þessum tveimur fiskum þá sá hópurinn til fleirri fiska í kuldanum á laugardeginum.