Undanfarna daga hefur fréttum af ágætri bleikjuveiði á Þingvöllum fjölgað. Það óvenjulega er að á sama tíma veiðist ágætlega af urriða. Við heyrðum af tveimur veiðimönnum sem náðu yfir 20 urriðum á tveimur kvöldum í lok síðustu viku, sá stærsti var 87 cm langur. Í morgun gerði svo Ásgeir Ólafsson flotta ferð á Þingvelli. Hann var mættur á sjötta tímanum í morgun en þegar klukkan fór að ganga níu fóru hlutirnir að gerast.

Ásgeir er vanur á Þingvöllum og við höfum áður fengið að birta myndir frá honum. Í morgun, kl. 05:30, þegar hann mætti til veiða við vatnið, var frábært veður; °7 hiti og nánast logn. Dagurinn gaf Ásgeiri 10 flottar bleikjur og einn urriða. Stærsta bleikjan var 3,5 pund og urriðinn var 6 pund. Öllum þessum fiskum náði hann í Vatnskoti og sagði hann að flestir þeirra sem voru þar með honum í morgun hafi verið að veiða bærilega vel. Einnig voru menn á Öfugsnáðanum sem voru að setja í´ann. Flugurnar sem gáfu Ásgeiri í morgun voru Peacock, Þingvallakuðungur og 5 bleikjur og urriðinn tóku afbrigði af Killer.

Nú fer í hönd tími bleikjunnar á Þingvöllum. Nú ættu allir þeir sem höfðu ákveðið að sækja vatnið heim í sumar, að fara að taka fram Veiðikortið og græjurnar. Þeir sem vanir eru veiðum á Þingvöllum vilja yfirleitt hefja veiðar mjög snemma morguns eða þegar fer að koma kvöld. Því er ekki slæm hugmynd að grípa með sér tjald og koma sér fyrir við vatnið og upplifa þá töfra sem það býr yfir þegar dagurinn tekur engan enda.

[email protected]

Hér eru allar réttu flugurnar til að ná í bleikjuna í Þingvallavatni.