Veiðikortið sendi frá sér tilkynningu í gær en þar kom m.a. fram að tvö ný vötn munu bætast við framboðið sem fylgir kortinu á næsta ári en einnig að eitt svæði myndi detta út. Það er Þingvallavatn II fyrir landi Ölfusvatns. Það svæði var eitt af aðal urriðasvæðum vatnsins í sumar. Margir veiðimenn sóttu það heim og áttu þar góðar stundir. Það fór hinsvegar nokkrum sögum af slæmri umhirðu nokkurra veiðimanna, bæði hvað varðar það agn sem var notað en einnig þótti stundum of mikið drepið af hinum verðmæta Ísaldarurriða sem byggir vatnið. Orkuveitan, sem á svæðið sem Ölfusvatnsvíkin tilheyrir, ákvað í vetur að bjóða svæðið út með skilyrðum.
Svæðið sem um ræðir er fyrst og fremst Ölfusvatnsvikin og Þorsteinsvíkin sem eru að margra mati langbestu urriðaveiðisvæðin í Þingvallavatni. Skilyrðin í útboðinu voru fyrst og fremst þau að öllum urriða skyldi sleppt aftur, veitt yrði eingöngu á flugu og veiði takmörkuð við 6 stangir. Tvær stangir í Þorsteinsvíkinni og 4 í Ölfusvatnsvíkinni. Leigutaki svæðisins á næsta sumri verður ION Hótel sem staðsett er á Nesjavallasvæðinu.
ION Hótel mun ekki síst markaðsetja þetta svæði í tengslum við þá erlendu ferðamenn sem koma til þeirra næsta sumar. Verð veiðileyfa inná þetta svæði verður töluvert hærra en almennt er í vatnið, sérstaklega á besta tímanum fyrir urriðaveiði sem er frá byrjun maí og fram undir lok júní. Íslenskum veiðimönnum býðst einnig að veiða á svæðinu en hægt er að senda fyrirspurnir á [email protected].