Nú styttist óðfluga í fyrsta almenna veiðidaginn við Þingvallavatn þessa vertíðina, 20. apríl. Það er ljóst að margir veiðimenn hafa hug á að reyna við urriðann á miðvikudaginn en einnig á fimmtudaginn sem er almennur frídagur. Þó svo að margir munu ekki láta veðrið stoppa sig, þá er allt í lagi að kíkja á spána fyrir þessa daga. Á miðvikudaginn er gert ráð fyrir suðvestan og vestan 8-13 m/s og slydduéljum og hita á bilinu 1-4°. Á fimmtudaginn er gert ráð fyrir svipuðu veðri, en þó þurru að mestu leyti.
Veiðin hófst í gær á ION svæðinu við vatnið og var veiðin mjög góð og komu margir flottir urriðar á land. Þar á meðal þessi hér á myndinni að ofan. ION svæðið er meira eða minna uppselt í sumar.