Hörðudalsá er syðstur dala í Dalasýslu en um hann rennur Hörðudalsá. Í gegnum tíðina hefur Hörðudalsá verið afburða sjóbleikjuá og i góðu sumari hafa veiðst yfir 1000 bleikjur. Hin síðari ár hefur bleikjuveiðin dregist saman eins og víða annarstaðar á landinu. Nú er hinsvegar sjóbleikjan mætt í ána og fyrsti laxinn veiddist um helgina þegar verið var að yfirfara merkingar við ána.

Síðustu ár hafa fyrstu veiðimennirnir verið að kíkja í Hörðudalsá uppúr 10. júlí. Sama er upp á teningnum í ár. Um helgina þegar verið var að yfirfara merkingar við ána fyrir sumarið var flugunni kastað út í nokkrar mínútur. Það tók ekki langan tíma þar til fyrsti laxinn tók. Síðan fengum við skeyti í kvöld frá Níels Olgeirssyni staðarhaldara við Hörðudalsá en hann sagði m.a.: „Hér tala eldri menn um að bleikjan komi í Hörðudalsá 10. Júlí. Ég var við ána í gær og í dag. Í gær sá ég ekki bleikju, en viti menn hún var mætt í dag í góðri torfu. Við tókum eina 1.200 gr. alveg nýgengna. Þannig að það er bæði að ganga lax og bleikja í nokkru magni að mér sýnist.“

Eitthvað er um laus holl í Hörðudalsánni í sumar og er um að gera fyrir menn að athuga með þau.

[email protected]