Torfastaðir í Soginu eru eitt þeirra svæða sem við bíðum spennt eftir að detti í gang – veður og hitastig ræður að sjálfsögðu miklu þar um. Þegar kvikar á lífríkinu í Soginu, þá mætir bleikjan í bílförmum og byrjar að næra sig eftir kaldann vetur.
Við heyrðum frá honum Ólafi Hilmari Foss, en hann kíkti á Torfastaði í rúman klukkutíma í dag. Veðrið var skaplegt. Lofthiti rúmlega 3 gráður, smá austan gola en þurrt. Lítið vatn er í Soginu, aðeins rúmlega 80 rúmmetrar. Algeng staða er á milli 95 og 110 rúmmetrar. Hitastig Sogsins var rúmar 4 gráður.
Óli þekkir Torfastaðasvæðið mjög vel og á þeim stutta tíma sem hann staldraði við, fór hann yfir nokkra af aðal stöðunum á hólmasvæðinu. Ekki setti hann nú í marga fiska, en náði þó einni litfagurri bleikju neðarlega á svæðinu. Sjá meðfylgjandi mynd.
Nú styttist í að vorið banki á dyrnar – okkur sýnist að það gæti gerst uppúr miðri næstu viku. Þá má telja líklegt að bleikjan fari á stjá en þangað til, þá er alltaf hægt að leita af urriða og sjóbirting á Torfastöðum.
 
			
					 
													 
				 
				 
				 
				 
				