Tungufljót í Skaftártungu er í hópi eftirsóttustu sjóbirtingssvæða landsins. Árlega veiðast rígvænir sjóbirtingar í Tungufljóti, sem oft eru um eða yfir 15 pund. Mikið er sótt í fyrstu vor hollin í Tungufljótinu enda bregst það varla að á land komi fjölmörg tröll. Dagurinn í dag er þar engin undantekning.
Veiða.is heyrði í kvöld frá veiðimönnum sem voru enn við veiðar í Tungufljótinu. Frekar kalt var þar eystra og hráslagalegt. Hátt í 30 fiskar voru komnir á land, flestir á bilinu 70-80 cm. Öllum fiski er sleppt aftur. Á myndinni hér að ofan eru þeir Ari Hermóður og Árni Friðleifs með einn vænan birting sem kom á land við Syðri Hólma í morgun.
SVFR er með Tungufljótið og þess má geta að eitthvað er um lausa daga þegar líður á apríl.